Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið í Silfurbergi í Hörpu í gær. Katrín M. Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri SSNV var stödd þar ásamt fleiri góðum fulltrúum frá Norðurlandi vestra og landinu öllu.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, setti landsþingið og ræddi í ávarpi sínu samtakamátt sveitarfélaga og mikilvægi þess að þau stígi sterkt og samstíga inn ef þau ætla að hafa rödd við borðið. Þá ávarpaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þingið og ræddi samstöðu landsmanna og viðbrögð við áskorunum.
Fyrir hádegishlé áttu Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og Heiða Björg samtal um sveitarstjórnarmál sem Sigríður Hagalín Björnsdóttir stýrði. Í kjölfarið tóku þau Sigurður Ingi og Heiða Björg við fjölmörgum spurningum landsþingsfulltrúa úr sal.
Eftir hádegi hélt Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna erindi um viðbrögð samfélagsins við hamförum og í kjölfarið fóru fram umræður á borðum um hamfarir og áskoranir sveitarfélaga við að mæta þeim. Þá stýrði Sigríður Hagalín umræðum um hamfarir og áföll.
Myndir frá landsþinginu má finna á facebook síðu SSNV: https://www.facebook.com/ssnordurlandvestra/
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550