Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) hafa samið við Þuríði Helgu Jónasdóttur, MA í hagnýtri menningarmiðlun, um að gera úttekt á umfangi skapandi greina á Norðurlandi vestra.
Markmiðið með verkefninu er að taka saman yfirlit um umfang skapandi greina og menningarlífs á Norðurlandi vestra. Um er að ræða upplýsingar um söfn og setur, sviðslistir, bóka- og skjalasöfn, tónlistarstarfsemi, listamiðstöðvar, húsnæði, gallerí, hönnuði, listamenn og margt fleira.
Með þessu verkefni er lagður grunnur að upplýsingabanka sem nýtast mun heimamönnum og þeim sem vilja koma og tengjast landshlutanum.
Þegar samantektinni er lokið þá verður hafist handa við að gera upplýsingarnar aðgengilegar. Þær munu m.a. gagnast þeim aðilum sem vilja standa fyrir viðburðum en vantar upplýsingar um húsnæði, listamenn og tengingar við heimamenn á hverjum stað.
Þá verður einnig í fyrsta sinn hægt að gera sér grein fyrir umfangi þessarar starfsemi á svæðinu sem nýtast mun m.a. opinberum aðilum við almenna stefnumörkun.
Fjölmargir íbúar Norðurlands vestra munu því eiga von á því á næstunni að til þeirra verði leitað með öflun upplýsinga og er það von SSNV að þeim umleitunum verði vel tekið.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550