Jólin heima er framúrskarandi verkefni á sviði menningar

Magnús Barðdal Reynisson atvinnuráðgjafi hjá SSNV og Jóhann Daði Gíslason verkefnisstjóri tónleikann…
Magnús Barðdal Reynisson atvinnuráðgjafi hjá SSNV og Jóhann Daði Gíslason verkefnisstjóri tónleikanna.

Verkefnið Jólin heima, sem hefur fest sig í sessi sem árviss menningarviðburður í Skagafirði, hefur verið valið Framúrskarandi verkefni ársins 2024 hjá SSNV. Tónleikarnir, sem leiddir eru af Jóhanni Daða Gíslasyni, hafa skapað sér sérstakan stað í hjörtum heimamanna.

Jólin heima eru árlegir jólatónleikar sem gefa skagfirsku tónlistarfólki tækifæri á að koma fram og flytja bæði frumsamin og þekkt jólalög sem allir kunna og geta sungið með. Á tónleikunum hefur skapast einstakt andrúmsloft sem endurspeglar menningarauð og samstöðu í samfélaginu.

Verkefnið hefur bætt miklu við annars blómlegt menningarstarf svæðisins og er mikilvæg áminning um mikilvægi þess að halda í heimafólk og hæfileika þess - sérstaklega á hátíð ljóss og friðar.

Það var árið 2020, í miðjum heimsfaraldri, sem fyrstu tónleikarnir voru haldnir og þá í beinu streymi. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður voru tónleikarnir afar vel sóttir og innkoman nýtt til að styrkja fjölskylduhjálp Skagafjarðar. Síðan þá hefur umgjörð tónleikanna stækkað jafnt og þétt í takt við aukna eftirspurn.

Verkefnið Jólin heima er því mikilvægur þáttur í að styrkja menningartengdar hefðir í Skagafirði og skapa samheldni og gleði í aðventunni.

Innilega til hamingju með viðurkenninguna.