Katrín M. Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri SSNV heimsótti innviðaráðuneytið nú á dögunum ásamt öðrum framkvæmdastjórum og formönnum landshlutasamtakanna. Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra fundaði með hópnum en landshlutasamtökin óskuðu eftir fundinum í þeim tilgangi að kynna samtökin, hlutverk þeirra og verkefni fyrir ráðherra og fá sýn hennar á byggðaþróun.
Góðar og gagnlegar umræður urðu á fundinum en ráðuneytisstjóri og allir skrifstofustjórar ráðuneytisins tóku einnig þátt í fundinum. Talsvert var rætt um sóknaráætlanir landshluta og hverju þær hafa áorkað sem öflugt byggðaþróunartæki, en nú vinna allir landshlutar að endurnýjun sóknaráætlana sinna. Einnig var rætt um lýðræði, samgöngur og skipulagsmál svo nokkuð sé nefnt.
„Það var mjög ánægjulegt að hitta allt það góða fólk sem stendur í stafni í landshlutasamtökunum og kynnast metnaðarfullu starfi þeirra. Það er mjög mikilvægt að styðja við byggðir landsins með kraftmikilli byggðastefnu en heimafólk um land allt vinnur þó þýðingarmesta starfið,“ sagði Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550