Hvað þýðir nýsamþykkt samgönguáætlun fyrir Norðurland vestra?

Mynd eftir Esther Tuttle af Unsplash
Mynd eftir Esther Tuttle af Unsplash

Samgönguáætlun áranna 2020-2034 ásamt aðgerðaáætlun áranna 2020-2024 voru samþykktar samhljóða á Alþingi þann 29. júní. Í áætluninni kemur fram að framkvæmdir við Þverárfjallsveg um Refasveit skuli fara fram á fyrsta tímabili áætlunarinnar (2020-2024) en skv. upplýsingum frá Vegagerðinni frá því fyrr á þessu ári er útboð verksins fyrirhugað síðar á árinu. Á öðru og þriðja tímabili áætlunarinnar eru settir 3 milljarðar króna í framkvæmdir við Vatnsnesveg og honum því flýtt að hluta um eitt framkvæmdatímabil. Báðar þessar framkvæmdir eru forgangsverkefni í sameiginlegri samgönguálætlun landshlutans sem samþykkt var í júní 2019.

 

Skv. þeim viðmiðunum sem koma fram í áætluninni mun Alexandersflugvöllur í Skagafirði falla undir svokallaða skosku leið en skv. henni munu íbúar landsbyggðarinnar sem búa í meira en 275 km. fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu fá endurgreiddann hluta fargjalds af ferð til og frá Reykjavíkur. Gert er ráð fyrir að framkvæmd hennar hefjist í september 2020.

 

Í áætluninni er fjallað um jarðgangaframkvæmdir sem taka á til skoðunar og eru Tröllaskagagöng og Fljótagöng á þeim lista. Vert er að taka fram að hvorug framkvæmd er á framkvæmdaáætlun heldur einungis til skoðunar. Bæði göngin eru tilgreind í fyrrgreindri samgönguáætlun landshlutans.

 

Ekki liggur enn fyrir hversu háar fjárhæðir koma inn á Norðurland vestra í viðhaldsframkvæmdir á stofn- og tengivegum. Ljóst er af nægum verkefnum er að taka hvað þá varðar en forgangsvegir í þeim flokki eru samtas 225 km í títtnefndri samgönguáætlun landshlutans.

 

Umsögn stjórnar SSNV um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun áranna 2020-2034 og aðgerðaáætlun áranna 2020-2024.