Nýr þáttur af hlaðvarpinu Fólkið á Norðurlandi vestra er kominn út. Viðmælandi þáttarins að þessu sinni er Skagfirðingurinn Helgi Sæmundur Guðmundsson.
Helgi Sæmundur rekur lítið framleiðslufyrirtæki sem sérhæfir sig í tónlist fyrir auglýsingar og sjónvarp. Auk þess að semja fyrir aðra er hann annar tveggja meðlima og stofnandi hljómsveitarinnar Úlfur Úlfur sem hefur gefið út þrjár hljóðversplötur og komið víðsvegar fram í áratug, bæði hérlendis og erlendis. Nýlega hefur Helgi Sæmundur framleitt myndbönd undir nafninu Norðvestur. Um er að ræða röð stuttra myndbanda um náttúru og menningu Norðurlands vestra til birtingar á samfélagsmiðlum. Helgi Sæmundur hefur auk þessa tekið þátt í skipulagningu og stjórnun ýmissa tónlistar- og menningarviðburða um langt árabil.
Árið 2019 var farið af stað með hlaðvarpsþættina Fólkið á Norðurlandi vestra. Framleiddir voru um 30 þættir sem vöktu mikla athygli og fengu góða hlustun. Við endurvekjum nú hlaðvarpið og stefnum á að birta þætti reglulega með viðtölum við áhugaverða einstaklinga á Norðurlandi vestra sem eru að sýsla við áhugaverða hluti.
Þættirnir eru aðgengilegir á podbean, inn á helstu hlaðvarpsveitum og á heimasíðu SSNV.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550