Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti í dag endurskoðaða samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034. Í áætlunni er gert ráð fyrir stórum framkvæmdum á Norðurlandi vestra enda löngu kominn tími á samgöngubætur á svæðinu. Á fyrsta tímabili áætlunarinnar er gert ráð fyrir framkvæmdum við Skagastrandarveg en hönnun þeirrar framkvæmdar var boðin út á dögunum og stendur nú yfir. Einnig eru framkvæmdir við Vatnsnesveg komnar inn á áætlunina á þriðja tímabili hennar af máli ráðherra að dæma.
Þessar framkvæmdir báðar voru nefndar í nýlegri Samgöngu- og innviðaáætlun Norðurlands vestra og skilgreindar sem forgangsverkefni í landshlutanum. Öll sveitarfélög starfssvæðis SSNV sammæltust um þessa forgangsröðun. Það er því sérstaklega ánægjulegt að sjá báðar framkvæmdirnar hljóta hljómgrunn hjá ríkisvaldinu.
Samgöngu- og innviðaáætlun Norðurlands vestra má nálgast hér.
Samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034 er nú til samráðs í Samráðsgátt stjórnvalda.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550