Fyrri dagurinn hófst á heimsókn í Kakalaskála í Skagafirði en þar hefur verið sett upp sýning um sögu Þórðar kakala með glæsilegum listaverkum sem listamenn frá öllum heimsálfum bjuggu til er þau dvöldu þar í mars og apríl. Stefnt er að opnun sýningarinnar nú í sumar. Síðan var Grjótherinn skoðaður en hann er til minningar um Haugsnesbardaga árið 1246 þar sem á annað hundrað manns létu lífið.
Heimsóknin var að sjálfsögðu undir leiðsögn Sigurðar Hansen sem manna best kann að glæða söguna lífi.
Á Sauðárkróki tók Áskell Heiðar Ásgeirsson á móti hópnum í húsnæði 1238: The Battle of Iceland. 1238 er upplifunar- og sögusýning sem tileinkuð er helstu stórviðburðum Sturlungaaldarinnar og segir söguna í gegnum nýjustu tækni og sýndarveruleika. Gert er ráð fyrir að sýningin opni í júní.
Áskell fræddi hópinn um tilurð og þróun sýningarinnar og að lokum fengu menn að prófa þessa tækni sem færir viðkomandi inn í bardagann á Örlygsstöðum.
Spákonuhof á Skagaströnd var næst á dagskránni. Þar fræddi Sigrún Lárusdóttir gesti um tilurð sýningarinnar, sögu Þórdísar spákonu og spádómsklefana sem þar eru. Að lokum fengu gestirnir að draga rún sem táknaði persónuleika viðkomandi.
Í Nes listamiðstöð tóku Kerryn McMurdo og Magnús B. Jónsson á móti hópnum og reifuðu sögu og þróun listamiðstöðvarinnar sem hefur starfað frá árinu 2008. Þar eru að meðaltali um 10-14 listamenn í hverjum mánuði, flestir erlendir, sem starfa þar að sinni list. Einnig var spjallað við nokkra af listamönnunum sem voru þar að störfum.
Seinni dagurinn hófst með heimsókn í Vörusmiðju BioPol á Skagaströnd. Vörusmiðjan er vottað vinnslurými fyrir smáframleiðendur sem hentar vel til þróunar, nýsköpunar og framleiðslu á náttúrulegum mat- og heilsuvörum. Þórhildur Jónsdóttir, starfsmaður Vörusmiðjunnar, sagði frá starfseminni og námskeiðahaldi í tengslum við hana.
Eftir heimsóknina tók við fundur þar sem rædd voru ýmisleg sameiginleg málefni. Meðal fundarefna var nýútkomið mat á framkvæmd sóknaráætlunar landshlutanna 2015-2019, reynslan af umsóknargáttinni og tilvonandi samningar um sóknaráætlun landshluta 2020-2024. Einnig var fjallað um undirbúning nýrrar sóknaráætlunar á Suðurlandi, verkefnið Straumar á Vestfjörðum, reynslunni af 3ja ára samningum um styrki Uppbyggingarsjóðs, Norðurstrandarveginn, menningar- og safnastefnur og tengsl menningar við Heimsmarkmiðin.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550