Handbendi, brúðuleikhús Gretu Clough á Hvammstanga, hlaut sem kunnugt er Eyrarrósina 2021, fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Handbendi er handhafi Eyrarrósarinnar í tvö ár og var þátttakandi á Listahátíð í Reykjavík 2022 með sýningu sína Heimferð / Moetivi Caravan. Af þessu tilefni var haldin móttaka til heiðurs Handbendi þann 16. júní síðastliðinn í Iðnó.
Handbendi var stofnað árið 2016 af leikstjóranum og brúðuleikaranum Gretu Clough og er hún jafnframt listrænn stjórnandi leikhússins. Handbendi er eina starfandi atvinnuleikhúsið á Norðurlandi vestra og eitt af sárafáum slíkum utan höfuðborgarsvæðisins.
Verndari Eyrarrósarinnar er frú Eliza Reid forsetafrú, en Byggðastofnun, Listahátíð í Reykjavík og Icelandair hafa staðið að viðurkenningunni í sameiningu frá árinu 2005. Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, ávarpaði Gretu á heiðursmóttökunni, þakkaði framlag hennar til menningar og lista og hvatti hana áfram til dáða, en auk hennar tóku frú Eliza Reid, Greta Clough og Þórunn Sigurðardóttir einnig til máls.
Fulltrúi SSNV tók þátt í að heiðra Handbendi, en brúðuleikhúsið er í hópi styrkhafa úr Uppbyggingarsjóði Sóknaráætlunar, vinnur dyggilega að því að sett markmið, t.d. nr. 1.1, 2.3, 2.7 og 2.12 í Sóknaráætlun Norðurlands vestra nái fram að ganga og hlaut auk þess viðurkenningu SSNV sem framúrskarandi verkefni á sviði menningarmála árið 2020. Við hjá SSNV óskum Gretu Clough og Handbendi innilega til hamingju með frábæran árangur.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550