Á 2. haustþingi SSNV sem haldið var 19. október 2018 á Blönduósi var samþykktur stuðningur samtakanna við Skíðadeild Tindastóls vegna framkvæmda við uppsetningu nýrrar skíðalyftu á skíðasvæðinu Tindastóli.
Skíðasvæðið Tindastóli er eina skíðasvæðið á Norðurlandi vestra. Uppbygging þar hófst árið 1999 og var nýtt svæði tekið í notkun með nýrri 1150 m langri lyftu í byrjun febrúar árið 2000. Lyftan byrjar í 445 m hæð yfir sjó og liggur upp í 690 m hæð. Fyrstu 300 metrarnir eru hentugir fyrir byrjendur og þá sem ekki treysta sér í mikinn bratta. Síðan þá hefur verið byggt upp eftir því sem efni og aðstæður gefa tilefni til og má þar m.a. nefna búnað til snjóframleiðslu sem tekinn var í notkun árið 2007 og töfrateppi fyrir börn árið 2015. Á skíðasvæðinu eru góðar brautir fyrir gönguskíðafólk og sérstakt svæði fyrir brettaiðkendur. Í þjónustuhúsi er boðið upp á veitingar og þar er einnig skíðaleiga.
Næstu uppbyggingaráform á skíðasvæðinu í Tindastóli eru framkvæmdir við uppsetningu nýrrar skíðalyftu sem keypt var haustið 2017. Verkefnið hefur verið í undirbúningi í um nokkurra mánaða skeið og m.a. var unnið nýtt deiliskipulag fyrir svæðið, ráðist í gerð áhættumats, matsskyldu o.s.frv. Nýja lyftan, svokölluð efri lyfta, er um 1000 m að lengd og mun taka við þar sem núverandi lyftu sleppir og ná alla leið upp á topp Tindastóls. Möguleikar til fjölbreyttrar skíðaiðkunar, útivistar og nýrra brauta munu því breytast til mikilla muna hvort sem er fyrir byrjendur eða lengra komna.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri SSNV og Viggó Jónsson framkvæmdastjóri skíðadeildarinnar gengu frá samningi um stuðninginn á dögunum og verður gaman að fylgjast með eflingu skíðasvæðisins í kjölfarið.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550