Haustfundur atvinnuþróunarfélaga á Austurlandi

Berglind, Maggi og Davíð sóttu haustfund atvinnuþróunarfélaga á Austurlandi daganna 7.-8. nóvember s…
Berglind, Maggi og Davíð sóttu haustfund atvinnuþróunarfélaga á Austurlandi daganna 7.-8. nóvember sl.

Þrír starfsmenn SSNV brugðu undir sig betri fætinum og heimsóttu Austurland 7.-8. nóvember sl. Tilgangur ferðarinnar var þátttaka í árlegum haustfundi atvinnuþróunarfélaga.  Þátttakendur fengu gagnlegar kynningar á Norræna Atlantshafsamstarfinu, NORA, sem og kynningu frá Byggðastofnun auk þess sem “sérfræðingur að sunnan” velti upp möguleikum á nýtingu gervigreindar.  Allt um lykjandi voru svo góð samtöl við kollegana úr hinum landshlutunum um t.d. aðferðir við atvinnuráðgjöf.

Starfsfólk Austurbrúar hafði skipulagt þétta dagskrá og bauð uppá heimsóknir í áhugaverð sýnishorn af fjölbreyttri flóru nýsköpunarfyrirtækja á svæðinu auk þess að kynna margt af því sem er á döfinni á Austurlandi.

Fyrirtækin Tandraberg/Ilmur viðarperlur, Vallanes (Móðir jörð) og Skógarafurðir voru heimsótt, einnig Hallormsstaðaskóli og sveitarstjóri Fljótsdals kynnti áform um byggingu nýs byggðakjarna í sveitarfélaginu. Í kynningum sem gestirnir fengu var áberandi áhersla á fullnýtingu hliðarafurða í skógarvinnslu, sjálfbærni og leiðum til að draga úr kolefnisfótspori í rekstri. Greinilegt er að Austfirðingar eru komnir vel á veg í umhverfismálum.

Ávinningur heimsókna sem þessara er ótvíræður. Ekki aðeins eflist tengslanet hópsins heldur víkkar einnig sjóndeildarhringurinn og hugmyndir vakna að verkefnum sem hægt er að yfirfæra á eigin landshluta. Takk fyrir okkur.