Annað tveggja teyma frá FNV sem tók þátt í fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla í Smáralind í lok mars var valið í úrslit og mun kynna viðskiptahugmyndina sína á uppskeruhátíð ungra frumkvöðla í höfuðstöðvum Arion banka kl. 15 í dag. Alls voru 700 nemendur sem tóku þátt í fyrirtækjasmiðjunni og voru aðeins 30 teymi valin til úrslita. Þar á meðal var fyrirtækið H. Hampur frá FNV sem er hrávinnslufyrirtæki sem vinnur þráð úr hampi til textílnota. Á bakvið viðskiptahugmyndina standa Haraldur Holti Líndal, Heiðar Birkir Helgason og Finnur Sorinson.
Ungir frumkvöðlar er metnaðarfullt verkefni sem snýst um að nemendur í framhaldsskólum landsins stofni eigið fyrirtæki utan um viðskiptahugmynd og miðar að því að efla skilning þeirra á fyrirtækjarekstri. Framkvæmdin er höfð eins raunveruleg og kostur er. Nemendur fjármagna stofnun fyrirtækis með sölu hlutabréfa, ráða í stöðugildi og búa til ítarlega viðskiptaáætlun og kynna svo fyrirtækið á fyrirtækjasmiðju. Að lokum er fyrirtækið gert upp með ársreikningi og skýrslu í lok tímabilsins. Atvinnuráðgjafi á sviði nýsköpunar hjá SSNV hefur stutt við teymin frá FNV sem tóku þátt í verkefninu í vetur með ráðgjöf og fræðslu.
Á uppskeruhátíðinni sem haldin verður í dag velja dómarar fyrirtæki ársins sem mun taka þátt í Evrópukeppni ungra frumkvöðla (JA Worldwide) í Tyrklandi í sumar.
Hér er hægt að lesa meira um verkefnið Unga frumkvöðla.
Við óskum H. Hampi til hamingju með árangurinn og óskum þeim góðs gengis í dag.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550