HÖLDUM ÁFRAM!
Núgildandi sóknaráætlanir landshlutanna gilda út árið 2024. Það styttist því óðum í að vinna þurfi nýjar sóknaráætlanir í takt við tíma og umhverfi. Í þeirri vinnu felast fjölmörg tækifæri til að horfa yfir farinn veg og rýna tækifæri framtíðarinnar.
Vönduð og vel unnin sóknaráætlun er öflugt stjórntæki
Að hafa stefnumótandi áætlun og áherslur fyrir hvert landsvæði getur skipt sköpum. Aðferðafræði sóknaráætlana gefur heimamönnum aukið frelsi til athafna og ákvörðunartöku um mál og málefni sem varða þeirra samfélag hvað mest hverju sinni. Sóknaráætlanir eru stefnumótandi skjal sem varpar ljósi á þau gildi og menningu sem landshlutinn byggir á. Þær eru mælitæki á þau markmið sem landshlutinn hefur sett sér og ramma jafnframt inn skýra framtíðarsýn íbúa. Þær taka mið af meginmarkmiðum byggðaáætlunar, landsskipulagsstefnu, skipulagsáætlunum, menningarstefnu og annarri opinberri stefnumótun. Sóknaráætlanir skipta máli og eru framtíðarsýn hvers landshluta sem innihalda markmið og val á leiðum sem tengjast stefnu stjórnvalda. Vönduð og vel unnin sóknaráætlun er einfaldlega stjórntæki og vegvísir ákvarðana sem hafa áhrif á þróun samfélags og byggðar.
Fjármunirnir nýtast best hjá þeim sem þekkja aðstæður og hafa innsýn í nærumhverfið
Lög um sveitarstjórnir fela landshlutasamtökum sveitarfélaga að vinna sóknaráætlanir á sínu svæði og bera ábyrgð á framkvæmd þeirra. Samkvæmt lögunum skulu sóknaráætlanir taka mið af meginmarkmiðum byggðastefnu og eftir atvikum öðrum opinberum stefnum. Sóknaráætlanir eru þannig t.d. tengdar með beinum hætti við byggðaáætlun fyrir allt landið. Eitt af megin markmiðum sóknaráætlana er að auka ábyrgð og völd landshlutanna þegar kemur að forgangsröðun og ráðstöfun á fjármunum frá ríkisvaldinu til verkefna sem tengjast samfélagsþróun og byggðamálum.
Bein áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta
Byggðamál eru viðfangsefni allra ráðuneyta og ná til landsins alls. Sóknaráætlanir auka samráð ráðuneyta á sviði byggðamála og aðlaga byggðamál að annarri stefnumótun. Í framtíðarsýn í núgildandi byggðaáætlun kemur fram að í öllum landshlutum verði blómlegar byggðir og öflugir byggðakjarnar þar sem stuðlað verði að bættum lífskjörum landsmanna með sem jöfnustu aðgengi að grunnþjónustu og atvinnutækifærum óháð efnahag og búsetu. Grunnþjónusta verði veitt íbúum sem mest í nær samfélagi. Það er svo undir hverjum landshluta komið hvernig styðja megi við þessa metnaðarfullu framtíðarsýn stjórnvalda með beinum hætti. Þar gæti nýsköpun komið sterk inn sem lykilvopn til að byggja á grunnstoðum atvinnulífs og samfélags. Skoða mætti hinar ýmsu sviðsmyndir til að hjálpa okkur að horfa til framtíðar. Grunnforsenda fyrir árangri í þessum efnum er að skerpa á framtíðarsýn íbúa og setja skýr markmið. Ef vitað er hvert ferðinni er heitið eru meiri líkur á að áfangastað verði náð.
Fyrir áhugasama má lesa greinagerðina sem unnin var af stýrihóp Stjórnarráðsins hér
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550