Ný fyrirtækjakönnun landshlutanna gefur góða mynd af stöðu og þróun atvinnumála á Norðurlandi vestra. Aukin þörf er eftir starfsfólki á svæðinu og þá sérstaklega hjá ferðaþjónustufyrirtækjum.
Í könnuninni var spurt hvort að þörf væri fyrir starfsfólk með ákveðna menntun. Norðurland vestra skar sig þar verulega út sem gæti bent til þess að störf á svæðinu séu nú þegar mönnuð af starfsfólki sem býr yfir tilskyldri menntun. Sama var uppi á teningnum þegar spurt var um þörf fyrir ákveðna færni, en einungis rúmlega 15% fyrirtækja á Norðurlandi vestra telur að það vanti starfsfólk með ákveðna færni.
Skapandi greinar skipa stóran sess á Norðurlandi vestra ef tekið er mið af landsmeðaltali en tæplega 6% af tekjum fyrirtækja á svæðinu má rekja til skapandi greina. Í síðustu fyrirtækjakönnun árið 2019 mældist hlutfallið rúm 2% og því ljóst að um töluverða hækkun er að ræða.
Ánægjulegt var að sjá að fyrirtæki á Norðurlandi vestra virðast hafa mestu þekkingu á þeirri þjónustu sem landshlutasamtök um landið veita. Sömuleiðis var mesta ánægja með Uppbyggingarsjóðinn, landshlutasamtökin og markaðsstofurnar á Norðurlandi vestra.
Fyrirtækjakönnunin var unnin af Vífli Karlssyni, hagfræðingi, fyrir Byggðastofnun. Hérna má finna niðurstöður fyrirtækjakönnunarinnar.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550