Frumkvöðlar á sviði mennta- og menningarstarfs á Norðurlandi vestra

Mynd eftir Júnior Ferreira af Unsplash
Mynd eftir Júnior Ferreira af Unsplash

Svo sem öllum er kunnugt þá eru verulegar takmarkanir á öllu samkomuhaldi nú í gildi. Flestir viðburðir falla niður, kórar og leikfélög eru í biðstöðu, kennsla í skólum er skert, kennt í fjarkennslu eða þeim jafnvel lokað, námskeið og tómstundastarf fellur niður, sum bókasöfn eru lokuð en önnur með skerta þjónustu, fólk er í sóttkví eða einangrun og svo mætti lengi telja upp.

Afleiðingar þessa ástands eru m.a. þær að öll dagleg rútína okkar fer úr skorðum. Margt fólk er í fjarvinnu heima hjá sér, börn og unglingar eru mun meira heimavið en áður og eldri borgarar eru varkárir vegna smithættu svo nokkur dæmi séu nefnd.

Næstu vikur munu því víða reyna á samskipti fólks á öllum aldri og þá er reyndar gott að hafa þolinmæðina og brosið í öndvegi. Einnig er hætta er á einangrun sumra aðila, t.d. eldri borgara og fatlaðra einstaklinga.

SSNV vill þess vegna hvetja alla þá aðila sem sinna mennta- og menningarstarfi á Norðurlandi vestra að skoða möguleika á að finna leiðir til að létta íbúum landshlutans og landsmönnum öllum lífið næstu vikurnar og hugsa út fyrir boxið í þeim efnum. Getum við breytt námskeiðum í kennslu á netinu, t.d. í matargerð eða tungumálakennslu? Er einhvers staðar efni í pokahorninu sem tilvalið væri að deila tenglum á, afþreying á einhverju formi? Gætum við miðlað ríkri menningu svæðisins með einhverjum hætti á samfélagsmiðlum? Gætu söfn sýnt einn og einn grip á ,,facebook live‟ eða rithöfundar lesið úr verkum sínum? Gætum við í sameiningu fundið nýjar og skapandi leiðir til miðlunar sem koma okkur öllum til góða?

Við hjá SSNV fögnum öllum hugmyndum og sérstaklega þeim sem verða til samstarfs aðila á svæðinu. Við erum tilbúin til að styðja við þær hugmyndir og leiðir sem fram koma, t.d. með aðstoð okkar starfsmanna, aðstoð við að afla búnaðar eða aðstöðu til miðlunarinnar eða á annan hátt ef þörf krefur.

Fyrir hönd SSNV


Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri