Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, hélt erindi fyrir hönd landshlutasamtaka- og atvinnuþróunarfélaga á ráðstefnu Byggðastofnunar um stefnur ríkisins í landshlutum. Ráðstefnan var haldin 22. - 23. janúar í Hveragerði.
Erindi Unnar bar yfirskriftina Frumframleiðsla – Hvað svo?
Í erindinu lagði Unnur áherslu á mikilvægi þess að ríki, stoðstofnanir og landshlutasamtök taki höndum saman og styðji mun betur en gert er við fullvinnslu afurða og þjónustu í héraði til að fjölga störfum, auka þekkingu og þann virðisauka sem myndast af framleiðslunni í heimahéraði.
Það er mat landshlutasamtakanna að mikið tækifæri felist í því að frumframleiðendur á landsbyggðinni fái hvatningu og stuðning til að fullvinna sína vöru eða þjónustu í nálægð við þau hráefni eða gæði sem notuð eru. Unnur tók dæmi um nokkur fyrirtæki víða um land sem nýta mismunandi hráefni og/eða gæði til að fullvinna sína vöru og þjónustu, svo sem Kerecis á Ísafirði sem framleiðir sérhæfðar lækningavörur úr fiskroði, Pure Natura sem framleiðir fæðubótarefni úr innmat og kirtlum fjallalamba, Óbyggðasetur Íslands í Norðudal í Fljótsdal sem býður ferðamönnum upp á heildarupplifun í afskekktri sveit, Friðheimar á Suðurlandi sem býður matarupplifun sem byggir á eigin ræktun tómata og Krauma í Borgarfirði sem nýtir jarðvarma í héraði úr vatnsmesta hver í Evrópu í glæsilegri baðaðstöðu sem og býður upp á veitingar úr hráefni sem framleitt er í héraði.
Unnur kom einnig inn á í erindi sínu að áhersla á fullvinnslu í héraði eigi sér ríka stoð í stefnu stjórnvalda, heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna auk þess að geta orðið ríkur þáttur í að aðlaga samfélög að þeim samfélagsbreytingum sem koma til með að fylgja 4. iðnbyltingunni.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550