Í dag var haldinn 5. fundur í Sjálfbærniráði Íslands sem er samstarfsvettvangur um sjálfbæra þróun. Áhersla fundar var kynning og framkvæmd stefnu Íslands um sjálfbæra þróun til ársins 2030.
Stefna Íslands um sjálfbæra þróun til ársins 2030 var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í byrjun júlí 2024. Í stefnunni er sett fram sú framtíðarsýn um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030 að stjórnvöld og samfélagið allt vinni sameiginlega að framgangi sjálfbærrar þróunar og að Ísland hafi uppfyllt heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Í stefnunni er gerð tillaga um aukna samhæfingu til að hraða aðgerðum í samræmi við markmið alþjóðlegrar sjálfbærniáætlunar Sameinuðu þjóðanna, Agenda 2030 (heimsmarkmiðin). Að auki tekur stefnan mið af alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland hefur gerst aðili að, samþykkt eða fullgilt.
Út frá helstu áskorunum á sviði sjálfbærrar þróunar eru í stefnunni greind fimm lykilviðfangsefni fyrir stjórnvöld á næstu árum:
Réttlát umskipti fyrir alla hópa samfélagsins
Efnahagslega sjálfbært samfélag
Umhverfis- og loftslagsmál
Ábyrg neysla og framleiðsla
Hnattræn ábyrgð
Í stefnunni eru einnig sett fram fjögur meginmarkmið stjórnvalda á sviði sjálfbærrar þróunar sem eru að:
Auka þekkingu, fræðslu og samfélagslega þátttöku.
Efla samvinnu og samhæfingu.
Þróa heildstætt áhrifamat stefnumótunar og innleiða velsældaráherslur í alla áætlanagerð.
Stuðla að hnattrænni ábyrgð og draga úr neikvæðum smitáhrifum.
Fyrir hvert þessara meginmarkmiða eru settar fram áherslur sem gert er ráð fyrir að leiði til beinna og skilgreindra aðgerða eða til samþættingar aðgerða í öðrum opinberum áætlunum til að markmiðunum sé náð.
Vinna við mótun stefnu Íslands um sjálfbæra þróun hófst haustið 2022 þegar samstarfsvettvangurinn Sjálfbært Ísland tók til starfa. Stefnan byggir á víðtækri stefnumótun og samráði stjórnvalda við fjölmarga haghafa. Þannig voru drög að grænbók um stefnu Íslands um sjálfbæra þróun rædd á samráðsfundum um land allt vorið 2023 og hvítbók kynnt til samráðs í febrúar 2024.
Hlutverk Sjálfbærs Íslands er að hraða aðgerðum til að ná markmiðum um sjálfbæra þróun eins og þau birtast í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar. Sjálfbært Ísland mun einnig vinna að því að réttlát umskipti á öllum sviðum samfélagsins séu leiðarljós í allri stefnumótun og aðgerðum.
Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér á vef stjórnarráðsins
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550