Oft hefur verið rætt um mikilvægi fræðslu fyrir sveitarstjórnarfulltrúa og ýmsar leiðir verið farnar til að koma til móts við þá þörf. Undanfarin kjörtímabil hafa ýmis landshlutasamtök sveitarfélaga skipulagt fræðsluferðir fyrir kjörna fulltrúa og bæjar- og sveitarstjóra til að kynna sér hvað efst er á baugi hjá nágrannaþjóðum. Í hópi þessara landshlutasamtaka eru Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) sem ákváðu snemma á þessu ári að skipuleggja sameiginlega ferð til Skotlands.
Þátttaka í ferðina var framar öllum vonum en 60 manna hópur, sveitarstjórnarfulltrúa, bæjar- og sveitarstjóra og starfsmanna SSV og SSNV hélt í víking til Skotlands síðustu vikuna í ágúst. Tilgangur ferðarinnar var að kynna sér helstu áherslur Skota í byggða- og sveitarstjórnarmálum. Hópurinn byrjaði á því að heimsækja Inverness, höfuðborg hálandanna, þar sem byggðastofnun svæðisins Highlands and Islans enterprise (HIE) hafði skiplagt dagskrá með okkur. Þar var boðið upp á áhugaverð erindi um vindorku, ýmis samfélagsverkefni sem stofnun hefur stutt við, ferðaþjónustu, fasteignafélag sem notað hefur verið til uppbyggingar atvinnuhúsnæðis í fámennari byggðalögum og loks var farið yfir skipulag almenningssamgangna í Hálöndunum. Síðan var farið í heimsókn í Inverness Campuss sem HIE hefur byggt upp í samvinnu við Háskóla Hálanda og eyja og atvinnulífið á svæðinu og er n.k. nýsköpunar og þróunarsetur. Þar er boðið upp á einstaka rannsóknaraðstöðu, rými fyrir ný fyrirtæki og frumkvöðla og einstakt samfélag þessara aðila.
Rúsínan í pylsuendanum (eða pylsuvagninum eins og góður Skagfirðingur sagði einhverju sinni) í Inverness var heimsókn í WASPS sem er samvinnurými fólks í skapandi greinum. Það var tæplega 40 mín gangur frá Inverness Campus niður í miðbæ þar sem WASPS er staðsett. Eftir að hafa lagt af stað í sólskini og rjómablíðu og þverað iðagræn tún, lenti hópurinn í einhverri mestu rigningu sem sögur fara af. Þegar við birtumst í WASP eins og hundar dregnir af sundi, enda nota Íslendingar ekki regnhlífar, þá var gott að komast á veitingastaðinn í miðrými WASPS og fá síðan áhugaverða gönguferð um vinnustofur, sýningarsali og skrifstofurými þeirra.
Frá Inverness var haldið í átt til Edinborgar með viðkomu í Cairngorm þjóðgarðinum. Þjóðgarðurinn er annar af tveimur þjóðgörðum í Skotlandi og er bæði yngri og stærri en þjóðgarðurinn við Loch Lomond. Stoppað var í litlu fallegu þorpi sem heitir Grantown on Spey, þar sem höfuðstöðvar þjóðgarðsins eru. Þar fékk hópurinn fróðlegt erindi um þjóðgarðinn, hvernig hann hefur stuðlað að jákvæðri byggðaþróun og stutt við ferðaþjónustu á svæðinu. Í þjóðgarðinum búa um 18 þúsund íbúar, ýmist í litlum þorpum eða á bóndabýlum og er sambúð íbúa og verndarsjónarmiða stöðug áskorun sem leyst er með öflugu samráði.
Síðast viðkomustaður í ferðinni var höfuðborg Skota, Edinborg. Þar heimsótti hópurinn COSLA sem er Samband sveitarfélaga í Skotlandi. Steven Heddle varforseti COSLA og sveitarstjórnarfulltrúi á Orkneyjum opnaði dagskrána. Skotarnir kynntu fyrir okkur verkefni sem þeir kalla Business gateway og snýst um ráðgjöf og skapa tengsl á milli sveitarfélaga og atvinnulífsins. Þá fengum við kynningar um umhverfis- og loftlagsmál annars vegar og velferðarmál hins vegar, en þessir málaflokkar eru meðal helstu áhersluatriða COSLA næstu árin. Það var fróðlegt að heyra af helstu verkefnum sveitarfélaga í Skotlandi og ljóst að þær áskoranir sem þau standa frammi fyrir eru mjög svipaðar og íslenska sveitarfélög glíma við.
Þó svo að fræðsla um sveitarstjórnar- og byggðamál hafi verið megin markmiðið með ferðinni þá var auðvita nauðsynlegt að nýta tímann líka til að kynnast landi og þjóð. Tækifærið var því notað til þess að sigla á Loch Ness og taka þátt í leitinni að Nessie, en fyrir tilviljun fór fram á sama tíma ein umfangsmesta leit að skrímslinu í 50 ár. Þá var farið í whiskey smökkun og fræðst um Edinborg undir leiðsögn heimamanna svo fátt eitt sé talið.
Það er ljóst að ferðir sem þessi eru vel til þess fallnar að víkka sjóndeildarhring sveitarstjórnarfólks, kynnast helstu áskorunum sveitarfélaga erlendis og máta þeirra lausnir við áskoranir heima fyrir. Þá skiptir samtalið um sveitarstjórnarmál sem og aukinn kynni á milli aðila sem skapast í svona ferðum gott veganesti fyrir frekari störf heima fyrir.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550