Forgangsröðun samgöngu- innviðaverkefna á Norðurlandi vestra

Á myndinni sést Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra taka við Samgöngu og i…
Á myndinni sést Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra taka við Samgöngu og innviðaskýrslunni úr hendi Þorleifs Karls Eggertssonar formanns stjórnar, Valdimars O. Hermannssonar bæjarstjóra á Blönduósi og stjórnamanns í stjórn SSNV og Unnar Valborg Hilmarsdóttur framkvæmdastjóra SSNV.

Á fundi sínum þann 4. júní sl. samþykkti stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra Samgöngu og innviðaáætlun Norðurlands vestra sem hefur verið í vinnslu frá því síðla árs 2018. Í áætluninni forgangsraða heimamenn þeirri innviðauppbyggingu sem þeir meta brýnasta í landshlutanum. Það er von samtakanna að áætlunin verði stuðningur við forgangsröðun verkefna ríkis og stofnana ríkisins. Samgöngur eru eðlilega stór kafli í áætluninni en einnig er fjallað um orkumál, bæði hitaveitur og raforku, fjarskipti, almenningssamgöngur, tengsl samgangna og innviða við stefnur og áætlanir ríkisins o.fl.  

 

Í áætluninni sameinast sveitarfélögin á starfssvæði SSNV um tvö samgönguverkefni sem megináherslu. Það eru Skagastrandarvegur og Vatnsnesvegur. Skagastrandarvegur er kominn inn á samgönguáætlun en hvatt er til þess að þeim framkvæmdum verði flýtt vegna bágborins ástands vegarins. Uppbygging og styrking Vatnsnesvegar er ekki á samgönguáætlun ef frá er talin framkvæmd við brúarstæði yfir Tjarnará sem nú stendur yfir. Til viðbótar við þessi tvö verkefni forgangsraðar hvert sveitarfélag brýnustu framkvæmdum við stofn og tengivegi á hverjum stað.

 

Í áætluninni er fjallað ítarlega um stöðu fjarskiptamála í landshlutanum en í tengslum við vinnu við áætlunina var gerð könnun á fjarskiptum í dreifbýli og kom í ljós að ástand þeirra er mjög bágborið. Þó mælingar sýni bæði net- og Gsm samband á útbreiðslukortum er veruleikinn engu að síður sá að samband er oft á tíðum mjög bágborið þegar komið er út fyrir veg og heim á bæi. Ýmislegt virðist hafa áhrif á gæði sambands eins og einn þátttakandi í könnuninni sagði: „fer út þegar hvasst er í sjó eða úrkoma. Farskip hafa og truflandi áhrif.“

 

Eins og fram kemur í áætluninni eru verkefnin á starfssvæðinu ærin. Með því að setja fram áherslur landshlutans og forgangsraða þeim vilja sveitarfélög á Norðurlandi vestra leggja sitt af mörkum til að auðvelda og flýta fyrir töku ákvarðana og þar með brýnum framkvæmdum við samgöngu- og innviðauppbygginu í landshlutanum.

 

Áætlunina er að finna hér.