Frá 2019 hefur SSNV reglulega birt viðtöl við fólk sem er að gera áhugaverða hluti á Norðurlandi vestra í hlaðvarpsþáttunum Fólkið á Norðurlandi vestra. Í gær kom út nýr þáttur þar sem talað var við vinkonurnar Þuríði Helgu Jónasdóttur og Sólveigu Pétursdóttur. Þær búa á Hofsósi og stofnuðu þar Verðandi endurnýtingarmiðstöð. Hægt er að hlusta á þáttinn á öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Verðandi endurnýtingarmiðstöð er aðstaða sem rekin er í húsinu Þangstöðum á Hofsósi. Meginmarkmiðið er að endurnýta og gefa gömlum hlutum, sem annars ætti að henda, nýtt líf. Sem stendur er aðstaðan tvíþætt, annarsvegar sauma aðstaða þar sem hægt er að endurnýta textíl og hinsvegar smíða aðstaða. Verkefnið byrjaði upphaflega þegar þær Helga og Solla uppgötvuðu sameiginleg áhugamál bæði í handverki og endurnýtingu og báðar voru þær þreyttar á neysluhyggjunni. Þær tóku í kjölfarið þátt í verkefni þar sem þær voru að sauma fjölnota poka fyrir verslanir ásamt fleiri konum í Skagafirði en verkefnið varð aðdragandinn að stofnun Verðandi.
Þær fengu húsið Þangstaði til afnota hjá sveitarfélaginu árið 2020 en urðu að taka húsið allt í gegn til þess að geta nýtt það. Endurbæturnar á húsinu endurspegla gildi verkefnisins, endurnýtingu, og var mest allt efni sem var notað endurnýttir hlutir sem stóð til að henda m.a. voru gamlir skápar notaðir sem klæðning á veggina.
Í dag er aðstaðan nýtt bæði til að halda námskeið þar sem fólk lærir að endurnýta efni t.d. að sauma ný föt úr gömlu efni, nýta gamlan textíl til að búa til nýja hluti, gera upp húsgögn og nýta kertaafganga til að búa til ný kerti. Þær hafa einnig tekið að sér verkefni þar sem þær sauma fjölnotapoka og aðgangsarmbönd fyrir fyrirtæki eða viðburði úr gömlum textíl.
Sólveig og Helga komu í viðtal í hlaðvarpsþátt SSNV, Fólkið á Norðurlandi vestra, og sögðu nánar frá Verðandi endurnýtingarmiðstöð og þeim verkefnum sem þær hafa verið að standa fyrir og taka þátt í. Þær ræddu einnig hvernig er að vera frumkvöðull og vera með verkefni eins og Verðandi þar sem hugsjón drífur verkefnið áfram en ekki hagnaður. Hér er hægt að hlusta á viðtalið við þær.
Við hvetjum ykkur til þess að fylgjast með þeim á samfélagsmiðlum þar sem þær auglýsa námskeið og viðburði.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550