Ferðakaupstefnan ITB í Berlín

Vikuna 3. - 6. mars fór ferðakaupstefnan ITB fram í Berlín. ITB er ein stærsta ferðakaupstefna heims og fagnar 60 ára afmæli á næsta ári. Þetta er stærsti viðburður sinnar tegundar og á honum komu saman yfir 5.700 aðilar frá 170 löndum til að kynna áfangastaði og ferðaþjónustu fyrir um 100.000 gestum, sem öll eru fagfólk innan greinarinnar. Öll aðsókn á kaupstefnuna var fagfólk í greininni.

Davíð Jóhannsson, ráðgjafi SSNV á sviði ferðamála, sótti kaupstefnuna og segir hana hafa verið vel sótta með líflegri stemningu. Hann nefnir að í ráðstefnuhluta viðburðarins, sem yfir 20.000 manns tóku þátt í, hafi verið fjöldi áhugaverðra erinda og umræðna. Þar var innreið gervigreindar í ferðaþjónustuna eitt helsta umræðuefnið, en áhrif tækninnar á þróun greinarinnar eru sífellt að verða meiri. Þá kom einnig fram að óvissuþættir í alþjóðamálum, sérstaklega síðustu vikna, séu áskorun fyrir ferðaþjónustuna, þó fyrstu markaðskannanir ársins bendi til þess að 2025 gæti orðið sterkt ferðasumar á mörgum mörkuðum.

Ísland var að venju kynnt á sameiginlegu sýningarsvæði Norðurlandanna með þátttöku um 40 íslenskra fyrirtækja. Þar var boðið upp á fjölbreytta kynningu á landinu og þeim upplifunum sem það hefur upp á að bjóða. Sérlegur gestur Íslandsbássins í ár var 1238 sýndarveruleikasýningin í Skagafirði, þar sem gestum gafst einstakt tækifæri til að upplifa Örlygsstaðabardaga í gegnum hátæknibúnað. Freyja Rut Emilsdóttir var á staðnum og leiddi gesti í gegnum þessa einstöku sýndarveruleikaupplifun, sem vakti mikla athygli meðal þeirra sem heimsóttu básinn.

ITB hefur löngum verið mikilvægur vettvangur fyrir ferðaþjónustuaðila til að mynda tengsl, kynna nýjar lausnir og greina nýjustu strauma í greininni. Með vaxandi áhrifum gervigreindar og þróun sjálfbærrar ferðaþjónustu eru viðburðir sem þessi lykilþættir í að fylgjast með breyttu landslagi ferðaiðnaðarins á heimsvísu.