Viðburðir framundan hjá SSNV

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra standa fyrir ör-ráðstefnum í streymi á komandi vetri. Um er að ræða ráðstefnur um málefni til að örva og styrkja rekstur. Lagt er upp með að ör-ráðstefnurnar verði ekki lengri en klukkutíma í senn.

Fyrsta ör-ráðstefnan ber heitið „Verslun á netinu“. Hún verður haldin 17. september. Líklega hefur aldrei verið jafn mikilvægt að vera með vefverslun og núna. Það eitt og sér er kannski ekki nóg. Farið verður yfir hvað einkennir góða vefverslun, hluti sem ber að varast og hvað getur haft áhrif á sölu. Farið verður yfir reynslusögur af vefverslun, hvað hefur gefist vel og hvað ekki. Edda Blumenstein, eigandi og ráðgjafi beOmni, fer yfir hugmyndafræði Omni-channel og hvernig hún er mikilvæg í upplifun viðskiptavina. Edda Blumenstein, eigandi og ráðgjafi beOmni, hefur síðastliðin 5 ár stundað doktorsrannsóknir á því hvernig leiðandi retail fyrirtæki hafa tileinkað sér þau tækifæri sem stafræna byltingin hefur upp á að bjóða með innleiðingu á svokallaðri Omni channel stefnu. Edda hefur haldið fjölda fyrirlestra og vinnustofur um allt sem viðkemur Omni channel, bæði á Íslandi og erlendis.

 

Á annarri ör-ráðstefnunni sem fer fram 15. október er yfirskriftin „Ert þú með hugmynd?“. Á þessari ráðstefnu fáum við meðal annars Hauk Guðjónsson til að vera með erindi um fyrstu skrefin í átt að því að koma hugmyndinni þinni í framkvæmd. Haukur býr yfir tveggja áratuga reynslu í frumkvöðlastarfi og hefur sjálfur stofnað 7 fyrirtæki í tveimur heimsálfum og þremur löndum. Hann hefur verið virkur þátttakandi í að byggja upp frumkvöðlaumhverfið á Íslandi og kenndi sitt fyrsta námskeið í stofnun fyrirtækja árið 2009 þegar hann hélt frítt námskeið í stofnun fyrirtækja til að hjálpa þeim sem höfðu farið illa út úr efnahagshruninu 2008.

 

Þriðja ör-ráðstefnan er „Hver er þín saga?“ en þar verður farið yfir hvernig er hægt að nýta sögu fyrirtækja og/eða einstaklinga til að auka virði vöru/þjónustu og vekja áhuga á fyrirtæki. Jafnframt verður farið yfir hvernig nýta má söguna í markaðssetningu. Nánari upplýsingar um viðburðina má nálgast á facebook síðu viðburðanna.

 

Verslun á netinu, fimmtudaginn 17. september kl. 11:00

Ert þú með hugmynd?, fimmtudaginn 15. október kl. 11:00

Hver er þín saga?, fimmtudaginn 12. nóvember kl. 11:00