Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra taka þátt alþjóðlegu samstarfsverkefni sem fengið hefur heitið Digi2Market. Verkefninu er ætlað að taka á ýmsum áskorunum sem fyrirtæki á jaðarsvæðum kunna jafnan að glíma við, svo sem smæð markaðar, fjarlægð frá markaði og einangrun. Verkefnið er fjármagnað að hluta til af Norðurslóðasjóði, en það er atvinnu- og byggðaþróunarsjóður sem er ætlað að stuðla að samstarfsverkefnum sem miða að því að finna lausnir á sameiginlegum viðfangsefnum samstarfslandanna. NPA svæðið samanstendur af norðurhéruðum Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Skotlands, Írlands ásamt Norður-Írlandi, Færeyjum, Grænlandi og Íslandi.
Þátttakendur í verkefninu auk SSNV eru WESTBIC og ICBAN (atvinnuþróunarfélög), Udaras na Gaeltachta (landshlutasamtök), University of Ulster og Karelia University (háskólar í Norður-Írlandi og Finnlandi). Það er Údarás na Gaeltachta á Írlandi sem leiðir verkefnið.
Markmið verkefnisins er að vinna með fyrirtækjum sem sýna áhuga á og sjá sér hag í því að nýta stafræna tækni í markaðssetningu til að auka markaðshlutdeild sína, hvort heldur sem er að auka sölu á núverandi markaði eða ef ætlunin er að sækja inn á nýja markaði hérlendis eða erlendis.
Verkefnið fékk staðfestingu í styrkveitingu í lok árs 2018 og var fyrsti verkefnafundurinn haldinn í Galway 13.-14. Nóvember 2018. Fjórði verkefnafundurinn var haldinn 6.-7. maí 2019. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði fundurinn farið fram í Joensuu í Finnlandi en sökum þeirra áhrifa sem COVID-19 hefur haft fór fundurinn fram á netinu í gegnum fjarfundarbúnaðinn Zoom. Sveinbjörg Rut Pétursdóttir og Davíð Jóhannsson, atvinnuráðgjafar SSNV, sátu fundinn fyrir hönd SSNV. Á verkefnafundinum var farið yfir stöðu verkefnisins og hvers verkhluta fyrir sig.
Töluverður þungi var lagður í vinnu við verkhluta T.3 og T.4, en T.3 snýr að því hvernig vinna fari fram með fyrirtækjunum sem taka þátt í verkefninu og T.4 snýr að heimasíðunni fyrir verkefnið sem verið er að smíða. Á fundinum var kynnt sniðmát fyrir greiningu á fyrirtæki sem unnið verður með í verkefninu. Lagt er upp með að vinna greiningu með þátttakendum til að átta sig betur á því hvert fyrirtækið stefnir, hvaða leiðir eru best færar og hvernig er hægt að mæla árangurinn.
Hluti af afrakstri samstarfsverkefnisins er að setja upp vefsíðu þar sem tilgangurinn er að skapa B2B (business to business) samstarfsflöt fyrir fyrirtæki út um alla evrópu. Útfærsla á heimasíðunni er í stöðugri þróun en virkni síðunnar á meðal annars að innihalda aðgengi að markaðstólum, dæmisögur af fyrirtækjum sem hafa skráð sig, möguleiki á samstarfi með fyrirtækjum erlendis, dæmi um markaðssetningu þar sem sýndarveruleiki/aukinn veruleiki er nýttur, og sniðmát til að auðvelda fyrirtækjum að taka reksturinn sinn út með umhverfissjónarmið að leiðarljósi.
Ekki er lagt upp með að það verði kostnaður við að skrá sig á heimasíðuna. Heimasíðunni er ætlað að vera enn einn liðurinn í því að auðvelda fyrirtækjum á jaðarsvæðum að auka markaðshlutdeild og jafnvel stefna á nýja markaði erlendis, m.a. með samstarfi við erlenda aðila sem fyrirtæki gætu komist í kynni við í gegnum síðuna.
Framundan er vinna með þeim fyrirtækjum sem hafa skráð sig til þátttöku á hverju svæði fyrir sig og ekki enn ljóst hvort eða hvernig áhrif af völdum COVID-19 verða á verkefnið. SSNV hefur gert samning við Tjarnargötuna sem kemur til með að leiða þann hluta er snýr að T.3 en innifalið í þeim verkhluta er greining á stöðu fyrirtækisins á samgélagsmiðlum og efnissköpun fyrir markaðssetningu.
Fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband við Sveinbjörgu Pétursdóttur á sveinbjorg@ssnv.is.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550