Digi2Market

Verkefninu Digi2Market var formlega hleypt af stokkunum miðvikudaginn 25. september 2019 í Menningarhúsinu Miðgarði með ráðstefnunni "aukin markaðshlutdeild með stafrænum leiðum". Ráðstefnuninni var jafnframt streymt á facebook síðu samtakanna og er aðgengileg þar sem og hér á heimasíðunni.

Markmið verkefnisins er að vinna með fyrirtækjum sem sýna áhuga á og sjá sér hag í því að nýta stafræna tækni í markaðssetningu til að auka markaðshlutdeild sína, hvort heldur sem er að auka sölu á núverandi markaði eða ef ætlunin er að sækja inn á nýja markaði hérlendis eða erlendis.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna, opnaði ráðstefnuna formlega og hafði orð á því að verkefnið Digi2Market væri sérstaklega í anda fjórðu iðnbyltingunnar sem mun fela í sér heilmörg tækifæri fyrir landsbyggðina. Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, atvinnuráðgjafi SSNV, tók næst til máls og kynnti verkefnið en hún leiðir það fyrir hönd samtakanna. Tvenn erindi voru í beinu streymi frá höfuðborgarsvæðinu en það voru Melkorka Sigríður Magnúsdóttir frá Icelandic Startup og Einar Benedikt Sigurðsson frá Tjarnargötunni. Meðal annarra fyrirlesara voru Freyja Rut Emilsdóttir frá 1238, Edda Sólveig Gísladóttir frá Kapli og Hörður G. Kristinsson og Holly T. Kristinsson frá Matís.

Það er ljóst að það eru fjölmörg fyrirtæki á Norðurlandi vestra sem gætu nýtt sér þátttöku í þessu verkefni. Nú á næstu vikum fer í gang vinna við að finna þátttakendur í verkefnið. Áhugasöm fyrirtæki eða aðilar á Norðurlandi vestra eru hvött til að hafa samband við Sveinbjörgu Rut Pétursdóttur á netfangið sveinbjorg@ssnv.is eða í síma 866-5390 fyrir frekari upplýsingar.

Hérna má einnig nálgast upptökur af ráðstefnuninni.