Í dag var lokið við uppsetningu á upplýsingaskilti um Guðrúnu frá Lundi, sem er hið fyrsta í röðinni "Dætur og synir Norðurlands vestra". Skiltið er staðsett í landi Lundar í Fljótum, fæðingarstaðar rithöfundarins en í dag eru einmitt 135 ár liðin frá fæðingu hennar. Á skiltinu eru upplýsingar á íslensku og ensku um Guðrúnu auk ljósmynda. Með QR-kóða, sem er að finna á skiltinu má svo nálgast frekara efni af vefsíðu.
Upphafið af verkefninu má rekja til vorsins 2020 þegar að kallað var eftir hugmyndum að átaksverkefnum í tengslum við aukafjárveitingu úr sóknaráætlun landshlutans vegna heimsfaraldursins. Ein af hugmyndunum var sú að koma fyrir skiltum á Norðurlandi vestra um persónur sem hefðu getið sér gott orð á ýmsum sviðum þjóðlífsins og tengdust stöðum á svæðinu. Verkefnið hlaut fljótlega ofangreint vinnuheiti, en ákveðið var að bíða með frekari skref þangað til ný grunnhönnun merkinga á ferðamannastöðum og friðlýstum svæðum lægi fyrir, sem var seinni part síðasta árs.
Á síðustu vikum og mánuðum hefur svo verið unnið að undirbúningi verkefnisins öflun texta og mynda, staðarvali osfrv. Þar áttum við einstaklega gott samstarf við afkomendur Guðrúnar, sem og landeigendur í Lundi. Það var svo sérstaklega ánægjulegt að geta sett hönnun og framleiðslu í hendur aðila á svæðinu, en útlitshönnun skiltisins var í höndum Ólínu Einarsdóttur og um framleiðsluna sá Myndun ehf. Starfsmenn Svf. Skagafjarðar önnuðust svo uppsetninguna.
Næstu skilti eru þegar í burðarliðnum, en gert er ráð fyrir að verkefnið standi straum að alls sex slíkum skiltum.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550