Centrinno Distributed Consortium Meeting

Mynd fengin af heimasíðu Textílmiðstöðvarinnar.
Mynd fengin af heimasíðu Textílmiðstöðvarinnar.

Dagana 25.-27. október tók Textílmiðstöðin á móti samstarfsaðilum sínum í Evrópska rannsóknarverkefninu Centrinno. Um var að ræða haustfund í verkefninu Centrinno og til Blönduóss komu samstarfsaðilar frá Barcelona og Genf en jafnframt var fundað á sama tíma í París og Mílanó. Fundinn sóttu einnig fulltrúar verkefnisins frá París og Amsterdam og samstarfsaðilar í Háskóla Íslands. 

Vinnustofan sem var í umsjá Textílmiðstöðvarinnar fjallaði um uppbyggingu Textílmiðstöðvarinnar sem miðstöð sköpunar, vettvangs þar sem fólk deilir þekkingu, kunnáttu og hefur tækifæri til að rannsaka og þróa textíl í víðu samhengi.

 

Katrín M. Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, og Ólöf Lovísa Jóhannsdóttir, ráðgjafi á sviði nýsköpunar, sóttu vinnustofuna fyrir hönd SSNV.

 

Á dagskrá hópsins var heimsókn í Ullarþvottarstöðina þar sem Guðmann Halldórsson fræddi fólk um starfsemina og íslenska ull. Á Heimilisiðnaðarsafninu tók Elín Sigurðardóttir á móti gestum, gamli bærinn á Blönduósi var skoðaður undir leiðsögn Katharinu Schneider og þær Stína Gísladóttir og Sveinfríður Sigurpálsdóttir sýndu og sögðu frá Vatnsdæla reflinum. Sameiginlegur kvöldverður var  á Brimslóð og á heimleiðinni var komið við í Kidka á Hvammstanga og sýndi Ingibjörg Helgadóttir gestum verksmiðjuna og vinnuferlið við framleiðsluna.