Fundargerð 56. fundar stjórnar SSNV, 2. júní 2020.

Hér má nálgast fundargerðina á pdf formi.

 

Fundargerð 56. fundar stjórnar SSNV, 2. júní 2020.

 

Þriðjudaginn 2. júní 2020 kom stjórn SSNV saman til fundar á Húnavöllum. Hófst fundurinn kl. 09:30.

 

Mætt voru: Þorleifur Karl Eggertsson, Álfhildur Leifsdóttir, Valdimar O. Hermannsson, Ragnhildur Haraldsdóttir og Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð. Stefán Vagn Stefánsson boðaði forföll. Þorleifur Karl Eggertsson formaður setti fundinn og stjórnaði honum.

 

Dagskrá

 

  1. Erindi frá Hreini Sigurðssyni.
  2. Uppsögn frá Katharinu Mariu Ruppel.
  3. Tölulegar upplýsingar um Norðurland vestra.
  4. Bókun stjórnar SSNV vegna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
  5. Fundargerðir.
  6. Umsagnarbeiðnir.
  7. Skýrsla framkvæmdastjóra.
  8. Önnur mál.

 

Afgreiðslur

 

1.      Erindi frá Hreini Sigurðssyni.

 

Á 55. fundi stjórnar SSNV var lagt fram erindi frá Hreini Sigurðssyni þar sem óskað var eftir  fjárhagsstuðningi vegna uppbyggingar vatnspökkunar á Hvammstanga. Stjórn fagnar allri atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi vestra og þakkar því erindið en hefur ekki heimildir til að styðja einstaka verkefni með þeim hætti sem óskað er eftir. Beiðni um stuðning er því hafnað. Stjórn vill benda á næstu úthlutun Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra sem auglýst verður á síðari hluta ársins. Einnig eru atvinnuráðgjafar samtakanna til þjónustu reiðubúnir varðandi aðra styrkjamöguleika sem og gerð áætlana.

 

2.      Uppsögn frá Katharinu Mariu Ruppel.

 

Lögð fram til kynningar uppsögn Katharinu Mariu Ruppel, bókara, á starfi hennar hjá samtökunum. Stjórn þakkar Katharinu störf sín í þágu samtakanna og óskar henni velfarnaðar. Starfið hefur þegar verið auglýst.

 

3.      Tölulegar upplýsingar um Norðurland vestra.

 

Framkvæmdastjóri fer yfir ýmsar tölulegar upplýsingar um landshlutann sem eru í vinnslu. Framkvæmdastjóra er falið að vinna gögnin áfram.

 

4.      Bókun stjórnar SSNV vegna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

 

Staðfesting bókunar stjórnar SSNV vegna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem samþykkt var í tölvupósti.

 

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra lýsir yfir miklum áhyggjum af áhrifum Covid-19 faraldursins á fjárhagsstöðu sveitarfélaganna á starfssvæði samtakanna og þeim áhrifum á framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem ástandið mun hafa vegna versnandi stöðu ríkissjóðs.

 

Ef litið er til nýlegrar greiningar Byggðastofnunar á áhrifum faraldursins  á sveitarfélög í landinu er ljóst að þau verða mikil. Lausafjárstaða og sjóðsstreymi sveitarfélaga mun breytast til hins verra. Tekjur munu dragast saman vegna breytts atvinnustigs með hruni ferðaþjónustunnar og afleiddra greina og þannig hafa áhrif á útsvarsstofn sveitarfélaga til lækkunar.  Hafnargjöld munu víða dragast saman og gera má ráð fyrir auknum kostnaði við félagsaðstoð. Til viðbótar við framangreint eru mörg sveitarfélög að bregðast við ástandinu með ýmiskonar átaksverkefnum og flýta framkvæmdum með tilheyrandi auknum kostnaði. Allt þetta mun óhjákvæmilega leiða til aukinnar skuldsetningar sveitarfélaganna.

 

Í áðurnefndri greiningu Byggðastofnunar kemur jafnframt fram að verði 10% samdráttur í skatttekjum ríkisjóðs gætu tekjur Jöfnunarsjóðs dregist saman um 4-5 milljarða sem hefur veruleg áhrif á rekstur sveitarfélaga í landinu. Sú skerðing til viðbótar við tekjuskerðingu vegna þeirra þátta sem nefndir voru hér að framan verður verulegt högg fyrir sveitarfélögin í landinu og til langs tíma leiða til þess að einhver sveitarfélög munu eiga í erfiðleikum með að halda úti lögbundinni þjónustu.

 

Það er ljóst að áhrif ástandsins á sveitarfélögin munu verða mismikil. Án efa munu fjárhagserfiðleikar einhverra sveitarfélaga kalla á sértækar aðgerðir af hálfu ríkisins. Stjórn SSNV vill hins vegar benda á mikilvægi þess að gripið verði til almennra aðgerða vegna ástandsins sem klárlega hefur áhrif á öll sveitarfélögin í landinu. Að mati stjórnar SSNV er vænlegasta almenna aðgerðin að tryggja að ekki verði skerðing á framlögum úr Jöfnunarsjóði til sveitarfélaganna með því að veita viðbótarfjármagni til sjóðsins. Þannig verði tryggt að fyrirsjáanlegar sveiflur í tekjum sjóðsins vegna efnahagsástandsins muni ekki hafa áhrif á framlög til sveitarfélaganna.

 

Skorað er á ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og ríkisstjórnina alla að grípa til þessarar almennu aðgerðar til að styðja sveitarfélög í landinu öllu í að rækja sitt mikilvæga hlutverk í að komast yfir þær erfiðu aðstæður sem nú eru uppi. Skv. skýrslu OECD um svæðabundin áhrif Covid-19 faraldursis munu sveitarstjórnir leika lykilhlutverk í því endurreisnarstarfi sem mun þurfa að eiga sér stað á næstu misserum. Það er því gríðarlega mikilvægt að sveitarfélögin hafi til þess fjárhagslega burði og þar eru framlög Jöfnunarsjóðs mikilvægur þáttur. Þau framlög mega ekki skerðast eigi sveitarfélögin að geta rækt hlutverk sitt í endurreisninni og haldið úti nauðsynlegri þjónustu fyrir íbúa.

 

Bókunin hefur þegar verið send á ráðuneyti, þingmenn landshlutans, aðildarsveitarfélög SSNV, Samband íslenskra sveitarfélaga, önnur landshlutasamtök og birt á heimasíðu samtakanna.

 

5.      Fundargerðir lagðar fram til kynningar.

 

a)        Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, 8. maí 2020. Fundargerðin.

b)        Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, 20. maí 2020.  Fundargerðin.

c)         Stjórn SSH, 4. maí 2020. Fundargerðin.

d)        Stjórn SSH, 18. maí 2020. Fundargerðin.

e)        Stjórn SSNE, 6. maí 2020. Fundargerðin.

f)          Stjórn SSS, 15. apríl 2020. Fundargerðin.

g)         Stjórn Vestfjarðastofu, 7. maí 2020. Fundargerðin.

h)        Stjórn SSA, 28. janúar 2020. Fundargerðin.

i)          Stjórn SSA, 10. mars 2020. Fundargerðin.

j)          Stjórn SSA, 14. apríl 2020. Fundargerðin.

k)         Stjórn Markaðsstofu Norðurlands, 8. maí 2020. Fundargerðin.

l)          Stjórn Markaðsstofu Norðurlands, 13. maí 2020. Fundargerðin.

 

6.      Umsagnarbeiðnir og mál í samráðsgátt stjórnvalda.

 

a)        Frumvarp til laga um fjarskipti, 775. mál. Sjá þingskjal hér. Umsagnarfrestur til 5. júní.

b)        Frumvarp til laga um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, 776. mál. Sjá þingskjal hér. Umsagnarfrestur til 19. maí. Sjá umsögn SSNV hér.

 

Send hefur verið inn umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Ekki þykir ástæða til umsagna um önnur mál.

 

7.      Skýrsla framkvæmdastjóra.

Flutt munnlega á fundinum.

 

8.      Önnur mál.

 

a)      28. ársþing SSNV 2020

 

28. ársþing sem vera átti 17. og 18. apríl 2020 var frestað um óákveðinn tíma vegna samkomutakmarkana sem þá áttu við. Stjórn ákveður að árs- og haustþing verði sameinuð og haldin dagana 23. og 24. október 2020. Framkvæmdastjóra er falið að hefja undirbúning þingsins.

 

b)     Markaðsstofa Norðurlands.

 

Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarfulltrúi SSNV í stjórn Markaðsstofu Norðurlands fer yfir helstu störf Markaðsstofunnar.

 

 

Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið kl. 10:42.

 

Þorleifur Karl Eggertsson

 

Valdimar O. Hermannsson

 

Álfhildur Leifsdóttir

 

Ragnhildur Haraldsdóttir

 

Unnur Valborg Hilmarsdóttir