Viðaukasamningur um orkuskipti á köldum svæðum í Húnaþingi vestra

Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri Húnaþings vestra og Sveinbjörg Rut Pétursdóttir framkvæmda…
Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri Húnaþings vestra og Sveinbjörg Rut Pétursdóttir framkvæmdastjóri SSNV við undirritun samningsins.

Undirritaður hefur verið viðaukasamningur vegna verkefnisins Orkuskipti á köldum svæðum í Húnaþingi vestra – greining og undirbúningur, en samningurinn er gerður með vísan í aðgerð C.1 Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036.

Samningurinn tekur til styrkumsóknar sem landshlutasamtök Norðurlands vestra lögðu fram fyrir hönd Húnaþings vestra. Verkefnið miðar að því að greina og meta fýsileika þess að koma upp staðarveitum með varmadælum á köldum svæðum í dreifbýli sveitarfélagsins, þar sem ekki er kostur á að tengjast núverandi dreifikerfi hitaveitu. Varmadælurnar yrðu í eigu og rekstri Hitaveitu Húnaþings vestra.

Langtímamarkmið verkefnisins er að stuðla að jöfnun og bættum búsetuskilyrðum í dreifbýli, lækka orkukostnað heimila og bæta orkunýtingu.

Heildarupphæð samningsins nemur 7,2 milljónum króna.

Með þessu mikilvæga verkefni er stigið skref í átt að sjálfbærari og hagkvæmari orkunýtingu í sveitarfélaginu, með hagsmuni íbúa í dreifbýli að leiðarljósi.