Vel heppnað haustþing SSNV að baki!

8. haustþing SSNV fór fram þriðjudaginn 15. október á Blönduósi í Húnabyggð og var það afar vel sótt af þingfulltrúum og öðrum gestum. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þáverandi matvælaráðherra ávarpaði þingið ásamt þingmönnunum Stefáni Vagn Stefánssyni og Teiti Birni Einarssyni.  

Hefðbundin þingstörf fóru vel fram og voru umræður góðar og uppbyggilegar fyrir landshlutann okkar sem á fjölmörg tækifæri inni á svo mörgum sviðum eins og formaður SSNV Einar E. Einarsson kom svo vel inn á í ávarpi sínu. Einar sagði m.a. að “Ef við horfum yfir sviðið þá er landshlutinn okkar eitt öflugasta landbúnaðarsvæði landsins með mikla landbúnaðartengda framleiðslu, en jafnframt líka mikið ónýtt land til og frekari ræktunnar og aukinnar framleiðslu, sem í felast tækifæri”.  

Aðrir gestir þingsins voru þær Ásdís Sigurbergsdóttir og Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir ráðgjafar frá Aton sem kynntu nýja sóknaráætlun svæðisins sem var einkar vel tekið. Sóknaráætlunina má sjá hér og var hún síðar í dagskrá samþykkt af þinginu í framhaldi að umfjöllun í allsherjarnefnd. Þá tók við erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga um stafrænt samstarf ríkis og sveitarfélaga og þau spennandi verkefni sem eru þar í vinnslu og verður gaman að segja nánar frá því síðar. Þar á eftir flutti Ottó Elíasson framkvæmdastjóri Eims erindi um lykilverkefni Eims á Norðurlandi vestra. Þar fór hann yfir dæmi um hvernig nýta megi orkuauðlindir og auka verðmætasköpun á hinum ýmsu sviðum sem tengjast okkar virðiskeðju með beinum og óbeinum hætti. Í kjölfarið fór svo Guðlaugur Skúlason starfsmaður SSNV yfir niðurstöður ungmennaþings SSNV, sem haldið var á Norðurlandi vestra í síðasta mánuði við góðar undirtektir ungmenna á svæðinu.  

Þingið sendi að lokum frá sér alls sex ályktanir og munum við hjá SSNV fylgja þeim vel á eftir við ráðuneyti og hluteigendur þar sem við á. Ályktanir þingsins má finna hér og munum fjalla nánar um hverja og eina síðar.  

Önnur gögn þingsins eru aðgengileg hér fyrir áhugasama.  

Frétt um ungmennaþing má finna hér