Sjö nýsköpunarteymi á Norðurlandi klára viðskiptahraðalinn Startup Storm!

Glæsilegur hópur frumkvöðla sem tóku þátt í Startup Stormi 2024, en gaman er að segja frá því að öll…
Glæsilegur hópur frumkvöðla sem tóku þátt í Startup Stormi 2024, en gaman er að segja frá því að öll teymin í ár voru leidd af konum.

Sjö nýsköpunarteymi á Norðurlandi kláruðu viðskiptahraðalinn Startup Storm sem Norðanátt, hreyfiafl nýsköpunar á Norðurlandi, stóð að.

Startup Stormur er sjö vikna viðskiptahraðall, þar sem þátttakendur fá tækifæri til að efla sig og sín fyrirtæki og vaxa með vindinn í bakið.

Þetta er í fjórða sinn sem Norðanátt stendur fyrir viðskiptahraðli en Startup Stormur hófst 3 október í ár. Þátttakendur hafa síðastliðnar sjö vikur fengið fræðslu, setið vinnustofur og myndað tengingar við reynslumikla aðila úr atvinnulífinu á svokölluðum mentorafundum.

Lokaviðburður var haldinn með pompi og prakt fimmtudaginn 14. nóvember síðastliðinn í Hofi á Akureyri. Nýsköpunarteymin stigu á stokk og kynntu verkefni sín fyrir gestum. Á lokaviðburðinum var einnig fjölbreytt dagskrá, Vilhjálmur Bragason var kynnir kvöldsins og skemmti gestum, Albertína og Katrín framkvæmdastjórar SSNE og SSNV fræddu okkur um Sóknaráætlun og áherslu á nýsköpun og frumkvöðla.

 

Sjö teymi kynntu verkefnin sín sem spanna fjölbreytt svið nýsköpunar:

Akur Organic – Nýtt framleiðslufyrirtæki í lífrænni ræktun í Langanesbyggð, sem stefnir að því að bjóða upp á hágæða lífrænar afurðir.

Syðra Holt – Fjölmenningarlegt lífrænt býli sem starfar á sviði landbúnaðar, búfjárræktar, matvælaframleiðslu og lista, með það að markmiði að opna kaffihús til að þróa verkefnið enn frekar.

Hret Víngerð – Þróar létt og freyðandi ávaxtavín úr rabarbörum af Norðurlandi vestra, sem ætlað er að selja heima- og ferðamönnum um land allt.

Skynró – Hannar fatnað fyrir einstaklinga með skynúrvinnsluvanda, þar sem flíkurnar sinna ólíkum skynþörfum með aukahlutum sem eru skynörvandi, veita ró og öryggi án þess að vera áberandi.

Kayakar – Kajakleiga þar sem viðskiptavinir fara á eigin vegum, auk þess að bjóða upp á hjólaleigu með skipulögðum ferðum og matarupplifun. Fyrirtækið er í stöðugri vöruþróun í afþreyingarferðamennsku.

Listakot Dóru – Býður upp á sögugöngu í myrkri undir heitinu myrkurgæði, þar sem upplifunin felst í að vera í algjöru myrkri og skynja landslagið í skugga.

Semey – Listamannadvöl á Ólafsfirði sem stefnir að því að útbúa aðstöðu og umgjörð fyrir listamenn til að iðka list og efla skapandi greinar í Fjallabyggð.

 

Þessi fjölbreytta flóra verkefna sýnir fram á þann kraft og sköpunargáfu sem býr í frumkvöðlum á Norðurlandi. Startup Stormur hraðallinn hefur veitt þessum teymum dýrmætt tækifæri til að þróa hugmyndir sínar og koma þeim á framfæri, og er ljóst að framtíðin er björt fyrir nýsköpun á svæðinu.

Við óskum teymunum til hamingju með kraftmiklar kynningar á verkefnum sínum og hlökkum til að fylgjast með þeim vaxa og dafna áfram!