Leiðtogafærni í eigin lífi - námskeið á vegum Leiða til Byggðafestu

Íbúum á Norðurlandi vestra, Vesturlandi og Vestfjörðum býðst fjölbreytt fræðsla haust og vetur 2024-2025 á vegum verkefnisins Leiðir til byggðafestu. Verkefnið sem snýr að eflingu nýsköpunar á sauðfjárræktarsvæðum á Íslandi. Fjórðungssamband Vestfirðinga (FV), Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) standa sameiginlega að verkefninu. Það er unnið með styrk frá innviðaráðuneytinu til að efla byggð á því landsvæði sem mest á undir sauðfjárrækt. Þar er litið til Dalabyggðar, Reykhólahrepps, Strandabyggðar, Kaldrananeshrepps, Árneshrepps og Húnaþings vestra.

Fyrsta námskeiðið sem boðið er upp á er Leiðtogafærni í eigin lífi. Um er að ræða leiðtoganámskeið fyrir íbúa á Norðurlandi vestra, Vesturlandi og Vestfjörðum sem haldið verður á Hótel Laugarbakka sunnudaginn 3. nóvember nk. kl. 10-17. Námskeiðið er endurgjaldslaust fyrir íbúa framangreindra svæða en skráning nauðsynleg. Námskeiðið er leitt af Jóni Halldórssyni hjá mennta- og þjálfunarfyrirtækinu KVAN.

Skráning á námskeiðið fer fram hér.

Skýrslan Leiðir til byggðafestu.

 

Um námskeið: 

Leiðtogafærni í eigin lífi
Vilt þú finna kraftinn til þess að taka næsta skref? Vilt þú fá aukið sjálfstraust til þess að hámarka árangur í starfi og/eða einkalífi? Vilt þú verða markmiðadrifin(n) og ná aukinni einbeitingu í verkefnum en á sama tíma ná að njóta augnabliksins?

Hvort sem þú vilt styrkja þig í persónulega lífinu eða annarsstaðar, þá ættu allir að geta grætt eitthvað á námskeiði KVAN. Hér gefur að líta nokkra þeirra efnisþátta sem farið er í á námskeiðinu:

Markmiðasetning og framtíðarsýn
Þú lærir að setja þér skýra framtíðarsýn og markmið bæði fyrir sjálfa/n þig eða vinnustaðateymi þitt. Aðferðafræðin sem notast er við eykur líkur á því að þú náir markmiðum þínum og framtíðarsýn þín verði að veruleika.

Styrkleikamiðuð nálgun
Á námskeiðinu er tekið viðurkennt styrkleikapróf og þér kennt að vinna út frá styrkleikum þínum bæði í starfi og einkalífi. Rannsóknir sýna að með því að veita athygli eigin styrkleikum og starfsfólks, þá sexfaldast líkurnar á virkni í starfi. Þú tekur styrkleikapróf sem þér verður kennt að lesa úr og yfirfæra á starf þitt.

Samskipti
Þér verður kennt að teikna upp samskiptakort og kortleggja samskipti í starfi og einkalífi og lærir aðferðafræði sem að hjálpar þér að þróa enn betri samskiptafærni með áherslu á jákvæð samskipti.

Leiðtogahæfni
Þú lærir aðferðafræði jákvæðra leiðtoga og listina við að hafa áhrif á hóp fólks til þess að hjálpa þeim að ná settum markmiðum. Til dæmis með því að fá samstarfsfólk til að stefna að settu marki. Ekki síður snýr þetta að því að vera leiðtogi í eigin lífi og ná settum markmiðum þar.

Hvatning og hrós
Þú lærir aðferðafræði sem getur nýst þér til að efla hæfileika þína í hvatningu og hrósi dags daglega. Lögð er áhersla á að styrkja sjálfstraustið og trú á eigin getu ásamt því að finna leiðir til að vera í meira jafnvægi sem nýtist vel þegar takast þarf á við breytingar hvort sem það er á starfsvettvangi eða lífinu sjálfu. Þú getur lært að finna leið til að vera besta mögulega útgáfan af þér sjálfri/sjálfum sem nýtist þér bæði í leik og starfi.