Fyrirtækið FoodSmart Nordic hlýtur viðurkenninguna Framúrskarandi verkefni 2024 á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar fyrir verkefnið Ný framleiðsluaðferð sæbjúgu: Losun þungmálma.
Verkefnið er til marks um nýsköpun og framtíðarsýn í meðferð sjávarafurða þar sem lögð er áhersla á sjálfbærni, öryggi og fullnýtingu takmarkaðra auðlinda.
Í verkefninu er þróuð ný framleiðsluaðferð sem verður til þess að hægt er að fjarlægja þungmálma úr sjávarafurðum. Það er gert með því að vinna afurðirnar niður í vökvaform og sía burt óæskileg efni áður en lokaafurðin er framleidd sem næringarríkt duft. Aðferðin er sérstaklega þróuð fyrir sæbjúgu en hefur einnig möguleika til notkunar á öðrum sjávarafurðum. Það kemur sér sérstaklega vel þar sem styrkur þungmálma heldur áfram að aukast samhliða því að reglugerðir herðast.
Verkefnið spratt út frá verkefni félagsins „Vöruþróun - sæbjúga sem bragð- og fæðubótarefni fyrir Evrópu“ sem fékk styrk frá Uppbyggingarsjóði SSNV árið 2023. Í því verkefni kom upp vandamál um heilnæmi hráefnis hvað varðar þungmálma. Sú niðurstaða leiddi til þessa þróunarverkefnis þar sem markmiðið er að þróa nýja framleiðsluaðferð sem getur fjarlægt þungmálma úr sjávarafurðum sem stuðlar að fullnýtingu á takmarkaðri auðlind.
Verkefnið kallast þannig vel á við aukna áherslu á sjálfbært, heilbrigt og næringarríkt mataræði þar sem almennar ráðleggingar kveða á um auka neyslu sjávarafurða. Það er því mikilvægt að tryggja bæði nýtingu og heilnæmi sjávarafurða.
FoodSmart sýnir með þessu verkefni fram á sterka framtíðarsýn í vinnslu sjávarfangs, þar sem öryggi neytenda og verðmætasköpun eru höfð að leiðarljósi. Verkefnið sameinar tækniþróun, matvælavinnslu og umhverfisvitund á áhrifaríkan hátt og opnar á spennandi tækifæri fyrir íslenska sjávarútveginn.
Um leið og SSNV óskar fyrirtækinu innilega til hamingju með viðurkenninguna viljum við nota tækifærið og benda áhugasömum lesendum á heimasíðu fyrirtækisins Foodsmart – Setting a new standard in food production
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550