Lokafundur Target Circular í Tromsö

Dr Niall O’Leary verkefnastjóri Target Circular
Dr Niall O’Leary verkefnastjóri Target Circular

Dagana 10.–13. mars sóttu Davíð Jóhannsson og Sveinbjörg Pétursdóttir, starfsmenn SSNV, lokafund verkefnisins Target Circular sem haldinn var í Tromsö í Noregi. Fundurinn markaði formleg lok átaksverkefnis sem miðar að því að styðja frumkvöðla í þróun hringrásarhagkerfisverkefna með sjálfbærni að leiðarljósi.

Target Circular er hluti af samstarfsverkefninu Target Circular NPA, sem styrkt er af Evrópusambandsáætluninni Interreg Northern Periphery and Arctic. Í verkefninu taka þátt stofnanir frá Írlandi, Finnlandi, Íslandi og Noregi.

Í samanlagt átta vikur hafa sjö nýsköpunarfyrirtæki í Tromsö unnið markvisst að því að þróa hugmyndir sínar með það að markmiði að bæta árangur, skerpa á framtíðarsýn og styrkja grundvöllinn fyrir rekstur sjálfbærs fyrirtækis. Á lokafundinum fengu fjögur fyrirtæki tækifæri til að kynna afrakstur vinnu sinnar fyrir verkefnishópnum, sem samanstendur af verkefnisstjórum frá öllum þátttökulöndunum, og öðrum gestum.

Frumkvöðlarnir lýstu mikilli ánægju með þátttökuna og sögðu verkefnið hafa hjálpað þeim að setja sér skýrari og metnaðarfyllri markmið, efla trú sína á eigin hugmyndir, koma betra skipulagi á vinnuna og öðlast dýrmætan stuðning frá öðrum þátttakendum.

SSNV er stoltur samstarfsaðili í þessu mikilvæga verkefni sem styrkir nýsköpun og sjálfbæra þróun á norðurslóðum. Verkefnið heldur áfram næstu misserin með áframhaldandi þróun og stuðningi við frumkvöðla í anda hringrásarhagkerfisins.

 

Fyrir nánari upplýsingar um verkefnið vinsamlegast hafið samband við Sveinbjörgu Rut Pétursdóttur, framkvæmdastjóra SSNV.