Katrín M. Guðjónsdóttir lætur af starfi sem framkvæmdastjóri SSNV
Katrín M. Guðjónsdóttir hefur sagt starfi sínu lausu sem framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og mun láta af störfum 1. apríl nk. Stjórn SSNV þakkar henni fyrir vel unnin störf og óskar henni velfarnaðar í framtíðarverkefnum.
"Ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að starfa í þágu Norðurlands vestra sem framkvæmdastjóri SSNV undanfarin ár. Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem ég hef starfað með á þeim tíma, stjórnarmönnum, kjörnum fulltrúum, starfsmönnum sveitarfélaga á starfssvæðinu, íbúum sem og samstarfsfólki utan landshlutans, fyrir gott samstarf. Sérstakar þakkir færi ég starfsfólki samtakanna fyrir frábært samstarf og óska þeim, ásamt viðtakandi framkvæmdastjóra, farsældar í störfum sínum í þágu landshlutans." er haft eftir Katrínu.
Sveinbjörg Rut Pétursdóttir tekur við sem tímabundinn framkvæmdastjóri
Stjórn SSNV hefur ákveðið að ráða Sveinbjörgu Rut Pétursdóttur, verkefnastjóra SSNV tímabundið, sem framkvæmdastjóra til 1. september 2026.
Sveinbjörg Rut er með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum og hefur starfað innan landshlutasamtakanna í rúm tíu ár og þekkir þ.a.l. starfsemi SSNV vel.
"Ég hlakka til að takast á við þetta spennandi verkefni og vinna áfram að þróun landshlutans. Hér hjá SSNV er frábært teymi sem hefur mikla reynslu og fagþekkingu, og ég er ánægð að fá tækifæri til að vinna áfram með þeim að framtíðarverkefnum," segir Sveinbjörg Rut.
Ný stjórn SSNV mun auglýsa starf framkvæmdastjóra að loknum sveitarstjórnarkosningum vorið 2026. Formanni SSNV hefur verið falið að ganga frá tímabundnum samningi við Sveinbjörgu Rut, sem mun hefja störf strax.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550