Ísponica: Ferðalagið hingað til og framtíðaráform

Amber Monroe í gamla húsnæði Ísponica á Hólum með grænsprettur.
Amber Monroe í gamla húsnæði Ísponica á Hólum með grænsprettur.

Ísponica er með lóðrétt innandyra vatnsgróðurhús (e. indoor vertical farming) á Hofsósi í Skagafirði þar sem affallsvatn úr fiskeldi er nýtt til ræktunar á grænmeti. Fyrirtækið stundar sjálfbæra ræktun sem um leið dregur úr kolefnisfótspori og innflutningi. Ísponica er frábært nýsköpunarfyrirtæki á okkar svæði og hefur verið gaman að sjá hvernig það hefur þróast. Á dögunum fékk Ísponica m.a. styrk úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka. Við fengum Amber Monroe eiganda Ísponica til þess að svara nokkrum spurningum tengdum ferlinu og framtíðaráformum fyrirtækisins.

 

Hvernig hófst Ísponica ferðalagið og hvernig hefur vegferðin verið fram til dagsins í dag?

Ferðlag Ísponica hófst í kjallaranum í gömlu fjósi á Hólum, árið 2021. Aðstaðan var lítil og framleiðslan líka en á þeim tíma voru aðallega ræktaðar grænsprettur (e. microgreens) með affallsvatni úr fiskeldi. Aðstaðan sem Ísponica notaði á þessum tíma var áður notuð undir fiskabúr í fiskasafninu sem starfrækt var á Hólum. Það hentaði mér vel þar sem mörg fiskabúr og annar aðbúnaður var enn til staðar, sem þýddi að ég hafði flest allt sem þurfti til þess að hefja framleiðsluna.  

Ég byrjaði á því að prófa mismunandi aðferðir til þess að rækta grænmeti, m.a. vatnsræktun úr kerfi án fiska (e. hydroponics), vatnsræktun úr kerfi með fiskum (e. aquaponics) og einfaldlega að handvökva plönturnar með því að nota vatn úr fiskeldi o.s.frv. Það hefur verið gaman að hafa háskólanema frá Hólum með í þessu verkefni og á síðustu þremur árum hafa komið nokkrir nemendur í starfsnám hjá Ísponica. Flestir sem hafa komið í starfsnám hafa komið í gegnum samstarf við Háskólann á Hólum eða aðra smáframleiðendur líkt og Ísponica (nánari upplýsingar um starfsnám má sjá á heimasíðu Ísponica). Niðurstöður verkefna þessara nemenda hafa hjálpað til við að bæta ræktunaraðferðir Ísponica, en það hefur verið mjög gagnlegt.

Árið 2024 flutti Ísponica í gamla frystihúsið á Hofsósi en það gaf fyrirtækinu tækifæri til að stækka en frekar. Rýmið þar býður upp á mun meiri framleiðslugetu. Húsið er einnig frábærlega staðsett og hefur áhugaverða sögu sem flestir Skagfirðingar kannast við. Ég reyni að halda sögu frystihússins í heiðri, ásamt því að skapa eitthvað nýtt á staðnum. Eins og staðan er núna er ég eini starfsmaðurinn í fyrirtækinu, sem getur verið krefjandi, en ég hef áform um að fjölga í hópnum snemma árs 2025. Ég er mjög spennt fyrir því að bæta við starfsfólki, því það þýðir að það verður meira svigrúm til þess að vinna að næstu markmiðum og verkefnum. Ég er einnig þakklát fyrir þá fjölmörgu vini sem hafa lagt hönd á plóg til að hjálpa mér á þessu annasama ári og styðja við Ísponica. Það hefur gefið mér tíma til að einbeita mér að næstu áföngum. 

 

Hvert er helsta markaðssvæði Ísponica í dag?

Okkar aðal framleiðsla eru grænsprettur og blóm sem hægt er að borða. Á þessum tímapunkti einbeitum við okkur að því að selja vöruna í Skagafirði s.s. í verslanir og á veitingastaði. Síðustu ár hefur Ísponica verið á tilraunastigi þar sem upprunalega húsnæðið bauð ekki upp á nægilega góða aðstöðu fyrir aðra framleiðslu vegna kulda. Í frystihúsinu hef ég hins vegar meiri stjórn á hitanum og aðstöðunni og get þess vegna aukið framleiðslu þar. Það er eftirspurn eftir grænsprettum á Íslandi en markaðurinn er hins vegar lítill. Sala Ísponica mun halda áfram í matvöruverslunum og veitingastöðum, en við erum í samningaviðræðum við dreifingaraðila um að hefja sölu á grænsprettum og ætum blómum í verslunum utan Skagafjarðar. Á næsta ári stefnum við á að hefja framleiðslu á sveppum og salati.

Ísponica selur vörur sínar í kjörbúðum í Skagafirði ásamt því að vera í samstarfi við veitingastaði á svæðinu. 

 

Núna er Ísponica að stækka og færast í stærra rými. Hvenær verður það tekið í notkun og hver er framtíðarsýn þín á Ísponica í stærra húsnæði?

Planið er að stækkun á rýminu okkar í frystihúsinu fari fram næsta sumar. Við þurfum að fara í endurbætur á nýju rými áður en það gerist en nýja rýmið er bæði mun stærra og einnig er góð lofthæð þar. Þar er hægt að hýsa stórt vatnsgróðurhús auk fiskeldistanka.

 

Hvernig hafa atvinnuráðgjafar SSNV hjálpað þér við uppbyggingu Ísponica?

Ég held að eins og staðan er núna hafi ég verið í samskiptum við næstum alla ráðgjafa hjá SSNV í gegnum árin. Ég hef fengið mikinn stuðning í gegnum ferlið, s.s. hjálp við styrkumsóknir, almenna viðskiptaráðgjöf, tengslanet, þátttöku í þjálfunarnámskeiðum og viðburðum. SSNV hefur brugðist hratt við þegar ég hef leitað til þeirra og þekkingin sem ég hef aflað í gegnum SSNV hefur stutt við þróun Ísponica. Ég hlakka til að vinna áfram með þeim næstu árin svo ég geti gert Ísponica að öflugu fyrirtæki á Hofsósi.  

 

Segðu okkur aðeins frá Tundra verkefninu, hvað er þetta? Hvernig mun það styðja við rekstur Ísponica?

Tundra verkefnið er hannað til þess að styrkja konur með fyrirtæki sem eru enn á vaxtarstigi. Fyrirtækin snúa öll að sjálfbærni og tækni og eru öll frá norðurslóðum (e. Arctic Regions). Tundra er samstarfsverkefni á milli Mixi, Arctic Pioneers, NIKK og Drift EA, sem er staðsett á Akureyri. Tundra hjálpar til við að auka viðskipti fyrirtækja með því að útvíkka markaðssvið þeirra og finna fjármögnunartækifæri. Tvö íslensk verkefni taka þátt í ár og er Ísponica annað þeirra. Tundra býður mér upp á verkefnafundi og vinnustofur og ég hef nú þegar tengst tveimur mentorum sem munu hjálpa mér við viðskiptaáætlanir, hugmyndamótun og ræða um áskoranir sem gætu komið upp hjá frumkvöðlafyrirtækjum. Í gegnum Tundra hef ég einnig kynnst öðrum frumkvöðlum sem hefur verið frábært, sérstaklega vegna þess að það felast tækifæri í því að taka höndum saman og auka gildi verkefna okkar.

 

Hver er framtíðardraumur Ísponica?

Ég sé fyrir mér að nýtt og stærra rými muni verða til margra nota. Við erum að skipuleggja uppbyggingu og endurbætur á húsinu, stór hluti frystihússins verður undir framleiðslu Ísponica; hátækni lóðrétt vatnsgróðurhús. Hönnun á vatnsgróðurhúsinu er í fullum gangi hjá Vertical Future UK sem sérhæfir sig í að hanna slík gróðurhús. Fyrr á þessu ári heimsótti ég þau í Englandi og hefur styrkur úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra komið sér vel varðandi þá vinnu. Þau eru að hanna fullkomnustu lóðréttu vatnsgróðurhúsin sem ég hef séð og ég er fullviss um að þau muni virka vel hér á landi. Það þarf að auka grænmetisframleiðslu innanlands því Íslendingar flytja inn mjög mikið af grænmeti.

Talsverður fjöldi ferðamanna kemur á Hofsós á ári hverju og þá sérstaklega til þess að skoða sundlaugina og Vesturfarasetur Íslands. Ég tel möguleika á því að halda áfram að þróa ferðaþjónustu á Hofsósi, sem myndi hafa jákvæð áhrif á alla atvinnuþróun á svæðinu. Ég sé til dæmis fyrir mér að setja upp kaffihús í þeim hluta frystihússins sem snýr að sjónum. Útsýnið yfir fjörðinn er ótrúlegt allt árið um kring og er algengt að sjá hvali þar á sumrin. Kaffihúsið yrði með einfaldan matseðil úr vörum framleiddum frá Ísponica og öðrum framleiðendum á svæðinu, þarna gætu ýmsir smáframleiðendur einnig selt sínar vörur.  

Ég hef alltaf verið opin fyrir samstarfi og ég held að þegar Ísponica verður fullmótað verði það enn betra en ég gerði ráð fyrir í upphafi. Þegar ég stofnaði Ísponica árið 2021 sá ég ekki fyrir mér að ég myndi fara með fyrirtækið yfir á Hofsós með þessi stóru framtíðarmarkmið. Margt getur breyst og það verður fróðlegt að sjá hvernig næstu ár munu þróast. Ég er enn að læra og það er mikil hjálp í því að ræða við reynslumeira fólk sem er tilbúið að gefa góð ráð hvað varðar viðskipti, framleiðslu og fleira. Ég mjög spennt fyrir framhaldinu og hlakka til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér.

Þessi mynd er sýnidæmi um það hvernig Amber sér Ísponica fyrir sér eftir nokkur ár í gamla frystihúsinu á Hofsósi.

 

Heimasíða Ísponica: https://isponica.is/

Instagram Ísponica: https://www.instagram.com/isponicaverticalfarm/

Facebook Ísponica: https://www.facebook.com/isponicaverticalfarm/?locale=is_IS

 

Við þökkum Amber fyrir að svara spurningum frá okkur og við erum full tilhlökkunar fyrir áframhaldandi samstarfi. SSNV hvetur ykkur til þess að kíkja við á Hofsósi og heimsækja Amber hjá Ísponica, og styðja þannig við framleiðslu í heimabyggð.