Gleði í gömul hjörtu

Myndasmiður: Erla Harðardóttir
Myndasmiður: Erla Harðardóttir

Um síðustu helgi hélt kvartett frá Skagaströnd tónleika fyrir íbúa nokkurra öldrunarstofnana á Norðurlandi vestra, en verkefnið "Gleði í gömul hjörtu" snérist um að færa eldri kynslóðinni lifandi tónlist með skemmtilegum og léttum lögum sem margir þekkja. Tónleikarnir voru haldnir á HSN á Sauðárkróki, Hjúkrunarheimilinu Sæborg á Skagaströnd, HSN á Blönduósi og HVE á Hvammstanga.

Framtakið vakti mikla ánægju meðal íbúa heimilanna og voru viðbrögðin afar hlý. Fólk naut þess að hlusta og syngja með, og skapaðist einstök stemning þar sem tónlistin kallaði fram minningar og gleði.

Halldór G. Ólafsson, einn meðlima kvartettsins, segir verkefnið hafa verið einstaklega gefandi fyrir alla sem að því komu. „Það verður að segjast að ég held að ég hafi aldrei tekið þátt í meira gefandi verkefni heldur en þessu og ég held að svo hafi verið einnig hjá hinum í kvartettinum. Fólk var ótrúlega þakklátt fyrir framtakið og við erum svo sannarlega velkomin hvenær sem er. Það er ótrúlegt að upplifa hvað tónlist getur haft jákvæð áhrif á fólk.“

Tónlistarflutningurinn var íbúum heimilanna að kostnaðarlausu, og stendur von til þess að kvartettinn haldi fleiri slíka tónleika í framtíðinni. Verkefnið sýnir vel hversu mikilvæg tónlist er fyrir andlega og félagslega vellíðan fólks, og hvað slíkt framtak getur skipt miklu máli fyrir þá sem dvelja á hjúkrunarheimilum.

Verkefnið hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði fyrir 2025. Framtak kvartettsins frá Skagaströnd er frábært dæmi um hvernig list og menning geta sameinað kynslóðir og fært gleði inn í daglegt líf.