Gagnvirkur sýndarveruleiki með 360° - Ferðaþjónustan Lýtingsstöðum

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra taka þátt alþjóðlegu samstarfsverkefni sem heitir Digi2Market. Verkefninu er ætlað að taka á ýmsum áskorunum sem fyrirtæki á jaðarsvæðum kunna jafnan að glíma við, svo sem smæð markaðar, fjarlægð frá markaði og einangrun. Verkefnið er fjármagnað að hluta til af Norðurslóðasjóði, en það er atvinnu- og byggðaþróunarsjóður sem er ætlað að stuðla að samstarfsverkefnum sem miða að því að finna lausnir á sameiginlegum viðfangsefnum samstarfslandanna.

Atvinnuráðgjafi SSNV, Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, hefur undanfarna mánuði unnið með íslenskum þátttakendum í verkefninu Digi2market að efnissköpun fyrir markaðssetningu með 360 gráðu myndum. Einn af íslensku þátttakendunum eru ferðaþjónustan Lýtingsstaðir – Horseback riding in Iceland.

Um Lýtingsstaði

Fólkið sem á og rekur ferðaþjónustuna eru Sveinn, Evelyn og Júlíus, íslensk-þýsk fjölskylda. Fjölskyldan á Lýtingsstöðum er einkennd af gestrisni og ástríðu fyrir sveitalífinu og íslenskan menningararf: íslenska hestinn, íslenska fjárhundinn og íslensk torfhús. Þau hafa ástríðu fyrir að taka á móti gestum, spjalla, miðla og aðstoða við að upplifa fallegu sveitina þeirra. Lýtingsstaðir er sveitabær sem staðsettur er í Skagafirði á Norðurlandi vestra og hefur fjölskyldan verið starfandi í ferðaþjónustu frá árinu 2000. Sveinn Guðmundsson er fæddur og uppalinn á Lýtingsstöðum. Hann hefur ræktað hross og sauðfé í langan tíma. Sveinn sér um að rækta og fóðra og stjórnar búskapnum. Hann hefur meira en 30 ára reynslu í hestaferðum. Evelyn Ýr er fædd og uppalin í Þýskalandi en hefur átt heima á Lýtingsstöðum síðan 1995. Hún er með M.A. í menningarfræði, elskar hesta og útreiðar og er ástríðufullur gestgjafi. Hún hefur margra ára reynslu af ferðaþjónusturekstri og er menntaður leiðsögumaður sem og stundakennari í Háskólanum á Hólum. Evelyn sér um markaðssetningu, sölu og skipulagningu ferðaþjónustunnar. Júlíus Guðni er fæddur 2003 og alinn upp á Lýtingsstöðum. Hann hefur umsjón með tæknilegu atriðunum (hljóðleiðsögn) og hannaði vefsíðuna. Júlíus elskar dýr og talar reiprennandi íslensku, þýsku og ensku.

Gagnvirkur sýndarveruleiki

Ferðaþjónustan á Lýtingsstöðum býður upp á margs konar þjónustu. Þau eru staðsett 20 km frá hringveginum sem einhverjir gætu átt erfitt með að finna. Efnið sem unnið var með Lýtingsstöðum býður upp á víðmynd af sveitabænum. Á víðmyndinni má finna leiðbeiningar um hvernig á að komast þangað með google maps, hægt er að sjá hvar á sveitabænum viðeigandi þjónusta og gisting er að finna ásamt nánari upplýsingum um þá þjónustu sem er í boði. Hægt er að sjá myndir frá sveitabænum, myndir af fólkinu sem rekur ferðaþjónustuna og stutt myndband af hestum sem gerir efnið enn meira lifandi. Á víðmyndinni er enn fremur boðið upp á gagnvirkan 360 gráðu sýndarveruleikaferð um gömlu hesthúsin. Þegar viðkomandi er staddur í sýndarveruleikatúrnum er hægt að sjá fleiri myndir af gömlu hesthúsunum auk þess að finna upplýsingar um samfélagsmiðla þeirra og myndbönd. Sömuleiðis er hægt að finna hlekk til að bóka þá þjónustu sem boðið er upp á.

Hérna má sjá lausnina sem unnin var með Lýtingsstöðum.