Gæðaáfangastaðurinn Skagafjörður tekur við EDEN verðlaunum 2015

Laufey Skúlad. og Laufey Harladsd. taka við EDEN verðlaunum á Ferðamálaþingi 2015Ferðamálastofa er fyrir Íslands hönd aðili að Evrópska EDEN-verkefninu, sem stendur fyrir „European Destination of Excellence“. Markmið EDEN verkefnisins er að vekja athygli á gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum Evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta, áfangastaði vítt og breitt um Evrópu þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni. Af þessu tilefni er haldin samkeppni um gæða áfangastaði í Evrópu annað hvert ár með nýju þema í hvert sinn, en þema ársins 2015 var matartengd ferðaþjónusta. Sérstök valnefnd yfirfór þær umsóknir sem bárust frá íslenskum áfangastöðum og ákvað valnefnd EDEN verkefnisins á Íslandi að útnefna Sveitarfélagið Skagafjörð sem gæðaáfangastað Íslands 2015 fyrir verkefnið Matarkistan Skagafjörður.   Verðlaunin voru afhent á  Ferðamálaþingi í síðustu viku í Hofi á Akureyri og í tengslum við verðlaunaafhendinguna var Matarkistan Skagafjörður með upplýsingabás í andyrinu á Hofi, þar sem kynnt voru sýnishorn af  skagfirskri  framleiðslu. Á myndinni sjást þær Laufey Skúladóttir og Laufey Haraldsdóttir sem tóku við verðlaununum úr hendi Ólafar Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra.