Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra veita árlega viðurkenningar fyrir framúrskarandi verkefni sem fram hafa farið á Norðurlandi vestra árið áður. Viðurkenningar eru veittar í tveimur flokkum:
a) Verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar
b) Verkefni á sviði menningar
Viðurkenningarnar geta fallið í hlut einstaklinga, hópa, félaga, fyrirtækja eða stofnana á Norðurlandi vestra fyrir framlag sitt í ofangreindum flokkum.
Hér má nálgast reglur um viðurkenningar fyrir framúrskarandi verkefni á Norðurlandi vestra.
Verkefnin sem hljóta styrk árið 2024 eru:
Menningarfélag Húnaþings vestra – Dansskóli Menningarfélagsins
Með stofnun Dansskóla Menningarfélags Húnaþings vestra hefur stórt skref verið stigið í átt að auknu aðgengi að fjölbreyttum og faglegum frístundum fyrir börn og ungmenni á svæðum þar sem slíkt framboð hefur áður verið af skornum skammti.
Dansinn sameinar list, hreyfingu og félagsfærni á einstakan hátt. Hann kennir samvinnu, tjáningu, aga og virðingu – og býður börnum og ungmennum vettvang til að njóta sín og blómstra, óháð bakgrunni, færni eða tungumáli. Verkefnið hefur sérstakt forvarnargildi og er mikilvægt fyrir samfélög sem búa við félagslega og efnahagslega áskoranir. Þar sem íþróttaframboð er takmarkað, skapar dansinn nýjan og nærandi valkost fyrir börn sem kunna að finna sig utan hefðbundinna ramma.
Það skiptir máli að skólinn er leiddur af fagkonum sem veita jákvæðar fyrirmyndir og styðja við fjölbreytileika samfélagsins á skapandi og uppbyggilegan hátt. Með þessum dansskóla er verið að veita mikilvæga þjónustu – og skapa rými þar sem gleði, sjálfstraust og samfélagsleg virkni fær að vaxa og dafna.
FOODSMART – Ný framleiðsluaðferð sæbjúgu: Losun þungmálma
Verkefnið er til marks um nýsköpun og framtíðarsýn í meðferð sjávarafurða þar sem lögð er áhersla á sjálfbærni, öryggi og fullnýtingu takmarkaðra auðlinda.
Í verkefninu er þróuð ný framleiðsluaðferð sem gerir kleift að fjarlægja þungmálma úr sjávarafurðum með því að vinna þær niður í vökvaform og sía burt óæskileg efni áður en lokaafurðin er framleidd sem næringarríkt duft. Aðferðin er sérstaklega þróuð fyrir sæbjúgu en hefur einnig möguleika til notkunar á öðrum sjávarafurðum.
FOODSMART sýnir með þessu verkefni fram á sterka framtíðarsýn í vinnslu sjávarfangs, þar sem öryggi neytenda og verðmætasköpun eru höfð að leiðarljósi. Verkefnið sameinar tækniþróun, matvælavinnslu og umhverfisvitund á áhrifaríkan hátt og opnar á spennandi tækifæri fyrir íslenska sjávarútveginn.
Jóhann Daði Gíslason – Jólin Heima
Jólatónleikarnir Jólin heima hafa á undanförnum árum skapað sér fastan sess í menningarlífi Skagafjarðar og vakið sérstaka athygli fyrir hlýlega og samheldna stemningu sem þeir færa inn í hjörtu heimafólks á aðventunni.
Tónleikarnir eru vettvangur fyrir skagfirskt tónlistarfólk, þar sem hæfileikar úr öllum kimum fjarðarins fá að njóta sín. Flutt eru bæði frumsamin jólalög og þekkt lög sem allir kunna og geta sungið með, en með því að blanda saman nýsköpun og hefð skapar Jólin heima einstakt andrúmsloft sem endurspeglar menningarauð og samstöðu samfélagsins.
Verkefnið eykur menningarlegt gildi svæðisins, styrkir tengsl fólks við rætur sínar og er dýrmæt áminning um gildi þess að halda í heimafólk og hæfileika þess – sérstaklega á hátíð ljóss og friðar.
SSNV óskar verkefnunum innilega til hamingju og hlakkar til að fylgjast með framvindu þeirra. Með stuðningi við framúrskarandi verkefni vill SSNV leggja sitt af mörkum til að efla menningarlíf og nýsköpun á Norðurlandi vestra.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550