Það er að mörgu að hyggja þegar rusl er flokkað og mikilvægt er að vanda til verka. Gera má ráð fyrir að talsvert falli til af rusli yfir hátíðarnar – og jafn mikilvægt og áður að vanda flokkunina. Góð regla er að henda ekki því sem hægt er að endurnýta.
Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga á þessum árstíma.
Jólaseríur sem ekki virka lengur flokkast sem lítil raftæki. Í þeim eru verðmætir málmar sem hægt er að endurvinna.
Ljósaperur af öllum tegundum (gló, halogen, led, flúor- og sparperur) flokkast með spilliefnum, ekki gleri. Mikilvægt er að perur brotni ekki þar sem spilliefni geta þá borist út í umhverfið.
Jólapappír má fara með öðrum pappír s.s. dagblöðum. Einhver munur er á því hvernig móttökuaðilar flokka þann sem er með glimmeri, málmáferð eða -húð. Nauðsynlegt er að skoða hvaða regla gildir á móttökustöðinni í þinni heimabyggð.
Merkispjöld eru yfirleitt úr pappa og flokkast þá eins og pappír.
Pakkabönd eru oft úr plasti og ber að flokka sem slík. Einnig eru til pakkabönd úr öðrum efnum s.s. silki og flokkast þau þá með textíl. Pappírsböndin fara með pappír. Sumar tegundir pakkabanda þarf því miður að setja með blönduðum úrgangi.
Rafhlöður á að flokka í sérstök ílát og skila á endurvinnslustöðvar. Það má alls ekki setja rafhlöður með almennu rusli vegna þess að þær innihalda spilliefni sem geta verið hættuleg bæði heilsu okkar og umhverfinu.
Mandarínukassa sem ekki stendur til að endurnýta t.d. í föndur eða sem hirslu má flokka sem timbur.
Kertaafgangar og sprittkertabikarar ættu ekki að fara í almennt rusl. Skila má málmbikurum á endurvinnslustöðvar og ýmsir aðilar nýta vax og búa til endurunnin kerti. Mögulega er einhver í þínu nágrenni sem myndi þiggja kertaafgangana þína.
Plastumbúðir utan af matvælum er mikilvægt að tæma vel og hreinsa til að hægt sé að endurvinna plastið.
Með því að flokka sýnum við samfélagslega ábyrgð því náttúran er okkar allra.
Flokkun hjá fyrirtækjum og stofnunum dregur bæði úr umhverfislegum áhrifum og lækkar rekstrarkostnað því losun á óflokkuðum úrgangi er kostnaðarsöm.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550