Auglýst er eftir umsækjendum um viðurkenninguna Eyrarrósin 2025. Óskað er eftir umsóknum frá aðilum sem standa að framúrskarandi, óhagnaðardrifnum menningarverkefnum á starfsvæði Byggðastofnunar sem starfrækt hafa verið í þrjú ár eða lengur og hafa auk þess haft áhrif á menningarlíf á sínu landssvæði. Umsóknarfrestur um Eyrarrósina og Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar er til kl. 16:00 mánudaginn 24. mars.
Til mikils er að vinna því auk heiðursins fylgja Eyrarrósinni 2,5 milljóna peningaverðlaun, gert verður myndband um verkefnið og verðlaunahöfum býðst möguleiki á að standa að viðburði á aðaldagskrá Listahátíðar Reykjavíkur.
Einnig eru veitt þrenn Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar til verkefna sem hafa verið starfrækt skemur en þrjú ár. Hvert þeirra hlýtur 750.000 krónur.
Líkt og fyrri ár standa Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Icelandair að Eyrarrósinni, verndari Eyrarrósarinnar er hr. Björn Skúlason, maki forseta Íslands.
Árið 2023 hlaut Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði Eyrarrósina en meðal fyrri verðlaunahafa má nefna Handbendi á Hvammstanga, Bræðsluna á Borgarfirði eystra, Skaftfell, Frystiklefann á Rifi, Aldrei fór ég suður, Ferska vinda í Garði, List í ljósi á Seyðisfirði og Skjaldborg á Patreksfirði.
Allar nánari upplýsingar um fyrirkomulag Eyrarrósarinnar og umsóknareyðublað má finna á vef Listahátíðar: www.listahatid.is/eyrarrosin
Nánari upplýsingar veitir Lára Sóley Jóhannsdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík og formaður valnefndar, lara@artfest.is, s. 8670749
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550