Drift EA opnaði formlega sl. laugardag!

Frumkvöðla- og nýsköpunarmiðstöð Driftar EA opnaði formlega laugardaginn 14. desember sl. Drift EA er óhagnaðardrifið og sjálfstætt hreyfiafl sem styður við nýsköpun og frumkvöðla. Áhersla er lögð á að skapa nýjar stoðir atvinnulífs og byggja upp aðlaðandi og spennandi tækifæri fyrir komandi kynslóðir sem vilja búa á Norðurlandi. Markmiðið er að út úr Drift komi öflug og rekstrarhæf fyrirtæki. Drift er staðsett á Strandgötu 1 á Akureyri og þar er vettvangur fyrir frumkvöðla, skapandi og kraftmikið fólk, fyrirtæki og fræðasamfélag. Hér mætast nýsköpun, tækni, rannsóknir og frumkvöðlar með stórar hugmyndir. Aðilar Driftar fá aðgang að vinnuaðstöðu, tengslaneti og spennandi viðburðum. 

 

Sex öflug fyrirtæki ásamt Háskólanum á Akureyri munu vera með starfsmann í Drift þeir kallast Driftarar. Þeir sérfræðingar munu veita frumkvöðlum og nýsköpunarhugmyndum stuðning, auk þess sem sérstakir þjálfarar munu aðstoða frumkvöðla við að ná settum markmiðum. Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir er framkvæmdastýra Driftar EA. Hún er reyndur stjórnandi, englafjárfestir og frumkvöðull sem brennur fyrir að skapa leiðandi samfélag nýsköpunar og frumkvöðlastarfs á Norðurlandi.

 

Í lok október fékk starfsfólk SSNV kynningu á aðstöðu og störfum félagsins og erum við fullviss um að opnun Driftar muni efla nýsköpunarsenuna á Norðurlandi til muna og skapa ný og spennandi tækifæri fyrir svæðið. Við óskum Drift innilega til hamingju!