Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Iceprotein ehf og Protis ehf., hlaut hvatningarviðurkenningu FKA

Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Iceprotein ehf og Protis ehf., hlaut hvatningarverðlaun FKA.

Hólmfríður lauk meistaranámi  frá Justus-Liebig Universität í Giessen í Þýskalandi  og doktorsprófi í lífvísindum og næringarfræði frá Háskóla íslands 2009. Hún er fædd og uppalin í Skagafirði og sneri þangað aftur að námi loknu þar sem hún stýrir nú tveimur frumkvöðla fyrirtækjum; rannsóknarfyrirtækinu Iceprotein og Protis íslensku líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu á lífvirku fiskprótíni úr villtum íslenskum þorski. Þannig nýtir hún þekkingu sína, reynslu og kraft í að efla orku og lífsþrótt landsmanna. Hólmfríður er sannfærð um að Íslendingar eigi í auknum mæli eftir að nýta hreina og óspillta náttúru landsins til að framleiða matvæli.  „Við sitjum á hvílíkum heilsueflandi verðmætum – og eigum að framleiða miklu meira“ segir hún.

Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a. að „Hólmfríður sé frumkvöðull þegar kemur að nýtingu afurða úr sjávarútvegi, sé aðili að fyrirmyndar samstarfi innan sveitarfélags á landsbyggðinni og milli háskóla- og rannsóknarstofnana með stuðningi atvinnulífsins.“

 

Við óskum Hólmfríði innilega til hamingju með viðurkenninguna.