Á dögunum veitti framkvæmdastjóri SSNV, Sveinbjörg R. Pétursdóttir, formanni Menningarfélags Húnaþings vestra, Sigurði Líndal, viðurkenningu fyrir hönd stjórnar SSNV fyrir Dansskóla Menningarfélagsins, sem valinn var eitt af framúrskarandi verkefnum Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra árið 2024.
Verkefnið hefur skapað ný tækifæri fyrir börn og ungmenni á svæðinu til að stunda faglegt og fjölbreytt dansnám í heimabyggð. Með dansinum sem verkfæri til sköpunar, félagslegrar þátttöku og inngildingar hefur Dansskólinn fest sig í sessi sem mikilvægur hluti af menningar- og tómstundalífi samfélagsins.
Haustið 2023 hóf Dansskóli Menningarfélags Húnaþings vestra starfsemi á Hvammstanga. Markmið skólans er að bjóða börnum og ungmennum upp á faglegt dansnám í heimabyggð og stuðla þannig að auknu aðgengi að fjölbreyttum frístundum á svæði þar sem danskennsla hefur hingað til ekki verið í boði.
Áhugi á dansnáminu kom strax í ljós. Um 52 nemendur skráðu sig til leiks á fyrstu önn, þar af sum sem þurfa að sækja nám sitt úr allt að 80 kílómetra fjarlægð. Kennslan fer fram í sviðslistarými Stúdíó Handbendis á Hvammstanga, í samstarfi við Brúðuleikhúsið Handbendi, og félagsheimilisins á Blönduósi.
Dansskólinn býður upp á fjölbreyttar námsleiðir í mismunandi stílum, m.a. street, hip hop, jazz og söngleikjadansi, og gefur börnum og ungmennum tækifæri til að njóta hreyfingar og tjáningar í gegnum listformið.
Kennarateymið samanstendur af danshöfundum og listamönnum með fjölbreytta reynslu og menntun. Meðal þeirra eru Chantelle Carey, sem hlotið hefur alþjóðlegar viðurkenningar og komið að keppnisliðum Íslands í dansi, og Ola Getka, dansari og kennari með reynslu frá Listaháskóla Íslands. Einnig hafa kennt við skólann Rebecca Hidalgo, Grímuverðlaunahafi, og Aþena Þórðardóttir, götudansari með keppnisreynslu.
Kennararnir koma úr ólíkum menningarheimum og gegna mikilvægu hlutverki sem jákvæðar fyrirmyndir í samfélaginu. Þeir stuðla að fjölbreytni og inngildingu, þar sem dansinn er tjáningarform sem nýtist öllum, óháð tungumáli eða uppruna.
Dansnám hefur víðtæk áhrif, bæði líkamleg og félagsleg. Það getur stutt við sjálfstraust, samvinnu, einbeitingu og andlega heilsu barna og ungmenna. Í dreifbýli, þar sem framboð á skipulögðu frístundastarfi er oft takmarkað, getur slík þjónusta skipt miklu máli fyrir velferð barna og fjölskyldna.
Verkefnið hefur einnig gildi sem forvörn gegn félagslegri einangrun, sérstaklega í ljósi þess að börn í dreifbýli eiga síður kost á fjölbreyttu úrvali tómstundaafþreyingu sem veitir sköpunargleði og samfélagslega tengingu.
Dagana 23.-27. júní verður í boði svokallaður sumardans. Keppnishópur dansskólans fer í lokakeppni heimsbikarsins í dansi (Dance World Cup) í byrjun júlí, en keppnin fer fram á Spáni. Dansskólinn býður alltaf upp á nám fyrir fullorðna á hverri önn, enda er þetta skemmtilegasta líkamsrækt í heimi.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550