Byggðagleraugun 2025

Björn Hrafnkelsson, Ásdís Ýr Arnardóttir og Pétur Björnsson. Ljósm. Höskuldur Birkir Erlingsson.
Björn Hrafnkelsson, Ásdís Ýr Arnardóttir og Pétur Björnsson. Ljósm. Höskuldur Birkir Erlingsson.

Handhafar Byggðagleraugnanna fyrir árið 2025 að þessu sinni eru tveir.

Annars vegar er það Sýslumannsembættið á Norðurlandi vestra sem hlýtur viðurkenninguna meðal annars fyrir framsækið starf í þágu ríkisþjónustu á landsbyggðinni og fyrir að vera skýrt dæmi um að ríkisstörf geti þrifist og vaxið utan höfuðborgarsvæðisins. 

Starfsmönnum hefur fjölgað nokkuð í kjölfar nýrra verkefna við innheimtu barnsmeðlaga. Vegna þessa nýju verkefna er Sýslumannsembættið nú einnig með starfsstöðvar bæði á Ísafirði og í Kópavogi. Fjölgun starfsfólks og viðvera á svæðinu endurspegla aukið traust á getu embættisins til að sinna verkefnum með fagmennsku og árangri. Með öflugri þjónustu, fagmennsku og framúrskarandi aðlögunarhæfni að breyttum kröfum hefur sýslumannsembættið á Norðurlandi vestra sýnt fram á að stjórnsýsla ríkisins getur dafnað á landsbyggðinni og jafnframt veitt mikilvægt mótvægi gegn miðstýringu. Embættið er þannig fyrirmynd annarra opinberra stofnana þegar kemur að því að dreifa ríkisþjónustu og störfum með byggðasjónarmið að leiðarljósi. 

Hins vegar er það Lögreglan á Norðurlandi vestra sem hlýtur viðurkenninguna fyrir markvissa og metnaðarfulla nálgun við mótun og framkvæmd löggæslu í þágu byggðajafnréttis og samfélagslegrar velferðar á svæðinu. 

Undanfarin misseri hefur lögreglan eflt sýnileika sinn til muna, meðal annars með öflugri nærveru á samfélagsmiðlum þar sem upplýsingagjöf og fræðsla til almennings eru í forgrunni. Með þessu hefur lögreglan tekið mikilvægt skref í átt að bættri tengingu við íbúa, ekki síst unga fólkið í landshlutanum. Sérstaka athygli vekur þátttaka lögreglunnar í samstarfsverkefninu Öruggara Norðurland vestra þar sem hún kemur að sameiginlegu átaki með fjölmörgum opinberum aðilum svæðisins.Lögreglan hefur jafnframt aukið viðveru sína á vettvangi, bæði í þéttbýli og á þjóðvegum svæðisins. Opnun lögreglustöðvar í Húnaþingi vestra var stór áfangasigur fyrir nærþjónustu í héraðinu og undirstrikar mikilvægi þess að löggæsla sé til staðar um allt land. Með því að leggja áherslu á nærveru, samráð og traust hefur Lögreglan á Norðurlandi vestra sýnt hvernig hægt er að innleiða opinbera þjónustu með skýr byggðasjónarmið að leiðarljósi.

Björn Hrafnkelsson staðgengill sýslumanns, Ásdís Ýr Arnardóttir sérfræðingur og Pétur Björnsson yfirlögregluþjónn tóku við viðurkenningunni fyrir hönd embættanna.

Byggðagleraugun eru veitt ár hvert af stjórn SSNV til ráðuneytis, stofnunar eða fyrirtæki sem þykir hafa skarað fram úr í fjölgun starfa/verkefna í landshlutanum eða með öðrum hætti stuðlað að uppbyggingu hans. Er viðurkenningunni ætlað að hvetja forsvarsmenn stofnana og fyrirtækja til að horfa með “byggðagleraugunum” á verkefni sinna eininga og nýta þau tækifæri sem gefast til flutnings starfa/verkefna á landsbyggðina í samræmi við áherslur byggðaáætlunar.

Aðilar sem til greina koma skulu;

A) vera með starfsstöð í landshlutanum,

B) hafa sýnt í verki vilja til að efla starfsstöðvar sínar í landshlutanum,

C) eða með öðrum hætti stuðlað að fjölgun starfa í landshlutanum.

Stjórn SSNV velur þann aðila sem viðurkenninguna hlýtur ár hvert og er viðurkenningin afhent á ársþingi samtakanna.