Beint frá býli dagurinn verður haldinn hátíðlegur um land allt sunnudaginn 18. ágúst. Að þessu sinni eru það Brúnastaðir í Fljótum, sem bjóða heim á Norðurlandi vestra og þar munu gestir geta notið alls þess, sem þau hafa upp á að bjóða í sinni framleiðslu. Þetta er einnig kjörið tækifæri fyrir gesti að kynnast öðrum heimavinnusluaðilum og smáframleiðendum frá Norðurlandi vestra, sem undir merkjum Beint frá býli verða á Brúnastöðum á sunnudaginn að kynna og selja vörur sínar.
Vegna slæmrar veðurspár var markaðnum komið undir þak - á Ketilási.
Framundan er skemmtilegur fjölskylduviðburður í glæsilegu umhverfi á Brúnastöðum en á svæðinu verður matarmarkaður, úrval af heimagerðu bakkelsi og ís til sölu úr litlu sveitabúðinni á býlinu ásamt drykkjum og vörum framleiddum á býlinu. Húsdýragarðurinn á Brúnastöðum verður opinn en þar eru geitur, kið, grísir, kalkúnar, kálfar, hestar, kanínur og hænur. Það verður 50% afsláttur í garðinn þennan dag.
Á Brúnastöðum búa hjónin Stefanía Hjördís og Jóhannes Helgi og hafa þau ásamt fjölskyldu sinni einnig stundað ferðaþjónustu á svæðinu um árabil. Ásamt húsdýragarðinum eru á staðnum rólur, trampólín og sandkassi fyrir börnin, en einnig geta gestir skoðað aðstöðu geitamjalta og ostagerðar heima á býlinu.
Beint frá býli dagurinn var haldinn í fyrsta sinn í fyrra í tilefni af 15 ára afmæli samtakanna og gekk hann svo vel að ákveðið var að hafa viðburðinn árlega héðan af. Tilgangur dagsins er að bjóða íbúum og gestum í landshlutanum heim á býli þar sem bændur vinna úr eigin afurðum. Um leið hafa þeir tækifæri til að kynnast og kaupa vörur af öðrum heimavinnsluaðilum af svæðinu.
Hér getur þú séð viðburðinn á Facebook
SSNV hvetur íbúa á svæðinu sem og aðra til að heimsækja Brúnastaði og eiga þar saman góðan dag.
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550