AUGLÝST EFTIR UMSÓKNUM UM STYRKI FRÁ FRAMKVÆMDASJÓÐI FERÐAMANNASTAÐA

Sveitarfélög og einkaaðilar sæki um

Meginbreyting felst í því að ekki er lengur gert ráð fyrir því að ríkið sæki um í sjóðinn heldur er hægt að sækja um styrki til uppbyggingar, viðhalds og verndunar mannvirkja og náttúru á ferðamannastöðum sem eru í eigu eða umsjón sveitarfélaga eða einkaaðila. Vert er að undirstrika að aðeins eru veittir styrkir til tiltekinna verkefna á ferðamannastöðum, ekki til staðanna sem slíkra eða til aðila. 

Nánar tiltekið styrkir sjóðurinn framkvæmdir sveitarfélaga og einkaaðila á ferðamannastöðum sem: 

a) Stuðla að náttúruvernd.
b) Auka öryggi ferðamanna.
c) Bæta úr skorti á nauðsynlegum innviðum.
d) Framkvæmdum sem búa til nýja ferðamannasegla/staði á „köldum“ svæðum eða árstímum.
e) Undirbúning og hönnun fyrir ofangreint.

Á upplýsingasíðu um umsóknir er nánar farið yfir hvaða reglur gilda en sjóðnum er til að mynda ekki heimilt að bera rekstrarkostnað mannvirkja, náttúruverndarsvæða eða annarra ferðamannastaða.

Sérstök áhersla fyrir úthlutun 2018

Sérstök áhersla í tengslum við úthlutunina nú er lögð á styrkumsóknir sem miða að því að fjölga viðkomustöðum ferðamanna, dreifa þar með álagi af ferðamönnum og efla ferðamennsku á minna sóttum svæðum. Gæðamat sjóðsins mun taka mið af þessari áherslu og eru umsækjendur hvattir til að kynna sér gæðamatsblað sjóðsins.

Hvar ber að sækja um

Sótt er um á rafrænni þjónustugátt Ferðamálastofu þar sem byrja þarf á að skrá sig inn með Íslykli eða rafrænum skilríkjum í farsíma. Áður en að því kemur er væntanlegum umsækjendum þó bent á að kynna sér vel það sem fram kemur á upplýsingasíðu um umsóknir.

Umsóknarfrestur

Umsóknarfrestur er til miðnættis 25. október 2017. Umsóknir sem berast eftir það eru ekki teknar gildar.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 535-5500 eða með tölvupósti á netfangið framkvaemdasjodur@ferdamalastofa.is.

Sjá nánar hér.