Atvinnutekjur á Norðurlandi vestra hækka um 2,3% á milli áranna 2016 og 2017

Út er komin á vegum Byggðastofnunar skýrslan Atvinnutekjur 2008-2017 eftir atvinnugreinum og svæðum. Í skýrslunni er leitast við að greina hvaða atvinnugreinar standa undir atvinnutekjum fólks eftir landsvæðum og hvaða breytingar hafa orðið á tímabilinu frá bankahruni.

 

Meðal helstu niðurstaðna má nefna að atvinnutekjur á landinu öllu hækkuðu að raunvirði um 7,4% á milli áranna 2016 og 2017. Greinar tengdar ferðaþjónustu héldu áfram að vaxa á árinu 2017, mælt í atvinnutekjum og mikil aukning varð í mannvirkjagerð á milli ára. Mestur samdráttur varð hins vegar í fiskveiðum og fiskvinnslu. 

Atvinnutekjur á Norðurlandi vestra voru 19.536 milljónir árið 2008 en lækkuðu í 17.656 milljónir árið 2009 og 17.413 milljónir árið 2010. Eftir það hafa þær farið jafnt og þétt hækkandi og eru 20.886 milljónir fyrir árið 2017. Gerir það um 2,9 milljónir á ári á íbúa samanborið við 2,6 milljónir á íbúa árið 2008.

Á Norðurlandi vestra voru atvinnutekjur ársins 2016 í heild 20.410 milljónir. Er þar um að ræða 2,3% hækkun á milli ára sem er umtalsvert lægra en heildarhækkun atvinnutekna á landinu öllu sem var 7,4%. Ef skoðaðar eru atvinnutekjur niður á atvinnugreinar má sjá að samdráttur er í atvinnutekjum í fiskveiðum (18,4%), iðnaði (1,1%) og fjármála- og vátryggingastarfsemi (13,1%). Mesta aukning atvinnutekna eftir atvinnugreinum er í flokknum gisting og veitingar (11,7%) og opinberri stjórnsýslu (11,5%).

Ef skoðaður er munurinn á Húnavatnssýslum annars vegar og Skagafjarðarsýslu hins vegar má sjá að tekjur í Skagafjarðarsýslu eru nokkru hærri. Samtals eru atvinnutekjur í Húnavatnssýslum 8.191 milljón eða 2,7 milljónir á íbúa en eru 12.695 milljónir í Skagafirði eða 3,1 milljón á íbúa. Hins vegar, ef litið er til breytinga á milli áranna 2016 og 2017, þá er hækkunin í Húnavatnssýslum hlutfallslega meiri á milli ára eða 2,9% á móti 2% í Skagafirði.

Skýrsla Byggðastofnunar er aðgengileg á vef stofnunarinnar: Atvinnutekjur 2007-2018