Áhrifaríkar sjálfbærniaðgerðir og auðveldari ákvarðanataka frumkvöðla

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) óska eftir frumkvöðlum, fyrirtækjum og ráðgjöfum til að taka þátt í nýju, alþjóðlegu verkefni, sem miðar að því að hjálpa litlum og meðalstórum fyrirtækjum að innleiða áhrifaríkar sjálfbærniaðgerðir og auðvelda ákvarðanatöku.

Verkefnið, Target Circular, er samstarf milli aðila á Írlandi, Finnlandi, Noregi, Íslandi og Svíþjóð og byggir á nýlegum rannsóknum á því hvernig fyrirtæki geta nýtt sér vísindalegri nálgun í ákvarðanatöku.

Verkefnið, sem er fjármagnað af Interreg áætlun Evrópusambandsins, mun vinna með litlum og meðalstórum fyrirtækjum og aðstoða þau við að taka upp hringrásar- og sjálfbærni venjur. Með því að nota ferlið „stefnumiðuð kortlagning“ mun það aðstoða fyrirtæki við að taka ákvarðanir um hvernig best sé að innleiða sjálfbærniaðgerðir.

Dr. Niall O’Leary, verkefnastjóri og prófessor hjá Hincks Centre for Entrepreneurship Excellence við MTU, telur að verkefnið muni veita litlum og meðalstórum fyrirtækjum verkfæri til að skerpa fókusinn og ná sjálfbærnimarkmiðum sínum.

„Metnaður vekur upp mikla orku og margar hugmyndir. En of margar hugmyndir geta verið hamlandi, því það eru aðeins visst margar klukkustundir í sólarhringnum og þú getur ekki gert allt. Stefnumiðuð kortlagning getur leitt til sjáanlegra umbreytinga hjá þátttakendum, frá því að vera með of mikið af hugmyndunum sem eru uppi á borðum, yfir í að vera einbeittari og stefnumiðaðri þátttakandi,“ segir hann.

Michael Ledwith, einn af fyrirtækjaeigendum sem tóku þátt í verkefninu á Írlandi, er meðstofnandi og framkvæmdastjóri AtlanticBiocycle - sprotafyrirtækis sem vinnur að því að umbreyta fiskiúrgangi í áburð fyrir landbúnað.

„Þetta hefur snúist um að sjá lokamarkmiðið og vinna sig til baka. Þetta hefur verið mjög gagnlegt til að hafa yfirsýn yfir verkefnið, að finna út hvernig skal halda áfram með leyfisveitingar, samstarfsaðila og skilja hvaða skref er best að taka næst og hvaða skref leiða helst til árangurs,“ sagði hann.

Louise Byrne, sjálfbærniráðgjafi Killarney Park Hotel og Ross Hotel í Kerry, og einn af hvatamönnum að Killarney Coffee Cup Project, þar sem meira en 50 fyrirtæki í bænum hafa skipt einnota bollum út fyrir skilagjaldskerfi, tók þátt í Target Circular verkefninu til að skoða leiðir til að auka samfélagslegt gildi verkefnisins og finna not fyrir kaffikorg og annan matvælaúrgang.

„Target Circular hjálpar okkur að skipuleggja og skerpa fókusinn. Þetta er praktískari nálgun frekar en að beina orkunni í farveg sem stuðlar ekki að því að ná langtímamarkmiðunum,“ sagði hún.

SSNV hefur á undanförnum vikum unnið með frumkvöðlum á svæðinu við að prófa þessa nýju aðferð og hafa undirtektir verið góðar.

 

Verkefnið kallar nú eftir ráðgjöfum um land allt til að taka þátt í kynningarviðburði sem haldinn verður 23. október nk. á Sauðárkróki.

Hér er hægt að skrá sig. 

Áhugasömum er bent á að hafa samband við Sveinbjörgu Rut Pétursdóttur verkefnastjóra hjá SSNV á netfanginu sveinbjorg@ssnv.is eða í síma 419-4551.