Líkamsræktarstöðin 550 hóf störf árið 2015 og hefur notið vinsælda á Sauðárkróki síðastliðin ár. Á síðasta ári stækkuðu þau stöðina sína og fengu ráðgjöf hjá atvinnuráðgjafa SSNV þegar farið var í það ferli. Stækkunin hefur lukkast vel en við hjá SSNV hittum þau Ernu Rut Kristjánsdóttur og Sigurð Snorra Gunnarsson eigendur stöðvarinnar í sl. viku í nýju stöðinni þeirra. Við fengum svo Ernu til þess að svara nokkrum spurningum um upphaf 550 og vegferðina fram til dagsins í dag.
Hvernig hófst ferðalag 550?
Ferðalagið hófst eiginlega bara eins og svo margt, með klikkaðri hugmynd. Ég hafði verið að æfa CrossFit bæði í Reykjavík og í Danmörku áður en ég flyt á Sauðárkrók árið 2013 og langaði mikið að geta haldið því áfram. Draumurinn um að opna mína eigin stöð var samt eitthvað svo fjarlægur að ég hugsaði það ekkert lengra fyrr en ég nefndi þessa hugmynd við Sunnu Björk Atladóttur snemma árs 2015, hún hafði líka verið í CrossFit og langaði að geta æft það hér heima á Sauðárkróki. Eftir stutt samtal fannst okkur þetta bara frábær hugmynd og áður en við vissum af vorum við komnar með húsnæði og fullt af iðkendum. Við opnuðum 2. nóvember 2015 sem að þýðir að stöðin verður 10 ára á þessu ári.
Hvernig hefur vegferðin verið fram að þessu?
Vegferðin hefur í heildina verið mjög skemmtileg og lærdómsrík. Smá hraðahindranir hér og þar en ekkert óyfirstíganlegt. Á tæpum 10 árum hefur maður kynnst fullt af fólki og eignast vini fyrir lífstíð í gegnum stöðina. Það hafa orðið alls konar breytingar á þessum árum, eigenda breytingar, þjálfara breytingar og breytingar á þjónustunni og nú síðast breytingar á húsnæði. Fyrstu tvö árin var fullt á öll grunnnámskeið og fljótt myndaðist kjarni iðkenda sem enn æfir CrossFit hjá okkur í dag. Fljótlega fórum við svo að eignast nýja þjálfara úr iðkendahópnum og í dag erum við með 14 þjálfara í stöðinni. Við erum ótrúlega heppin með þjálfarana okkar. Það er ekki hlaupið að því að vera með svona marga þjálfara sem hafa allir mikinn metnað fyrir þjálfun og elska að hjálpa iðkendum að ná sínum markmiðum og gleðjast með þeim þegar markmiðin nást. Það eru forréttindi að hafa slíkan hóp þjálfara í stöðinni og við erum endalaust þakklát fyrir þau og þau eiga hvert og eitt stóran þátt í því hvar við erum í dag. Siggi kemur inn í þetta allt saman 2018/2019 og frá árinu 2021 höfum við verið einu eigendur stöðvarinnar.
Við höfum síðustu ár boðið upp á fjölbreytt námskeið s.s. karla- og konufit, mömmufit og krakkafit, fimleikar og jóga fyrir börn, buttlift og core æfingar, spinning námskeið sem hafa notið mikilla vinsælda ásamt auðvitað wod tímum sem eru oftar en ekki CrossFit miðaðir. Það myndast alltaf biðlistar á námskeið hjá okkur sem er auðvitað gríðarlega jákvætt og sýnir að fólk hefur áhuga á því sem er í boði.
Núna var 550 að flytja í stærra húsnæði, hvernig kom það til og hvernig er búið að ganga? Hvaða tækifæri felast í stærra húsnæði?
Já, í sumar stækkuðum við um 170 fermetra en stöðin er nú staðsett á Borgarflöt 1. Það er orðið ansi langt síðan að það fór að koma pressa á stærra rými. Við höfum alltaf byggt stöðina upp á hópatímum og gamla húsnæðið bauð bara upp á einn tíma í einu vegna stærðarinnar og því hefur verið lítið rými fyrir iðkendur til að æfa utan þeirra tíma. Okkur hefur lengi langað til að stækka húsnæðið en gengið illa að finna húsnæði í það. Við höfum fengið gífurlega aðstoð frá atvinnuráðgjafa SSNV í þessu ferli og meðal annars við það að finna húsnæði, áætlanagerð og svo margt fleira, ef spurningar vöknuðu þá fengum við alltaf svör eða leiðbeiningar um hvert við ættum að snúa okkur í hvert skipti. Það er algjörlega ómetanlegt að hafa aðgang að þessari þjónustu sem SSNV býður upp á og ég hef grun um að það viti ekki endilega allir af henni, ég vissi alla vega ekki almennilega hvað var í boði fyrr en við fórum í þetta verkefni. Við erum endalaust heppin að hafa fengið alla þessa aðstoð því að í svona ferli koma alltaf upp alls konar mál sem þarfnast þekkingar og reynslu sem atvinnuráðgjafar SSNV geta svo sannarlega aðstoðað með. Við myndum í það minnsta ráðleggja öllum hér á svæðinu í svipuðum pælingum að hafa samband við SSNV, við hefðum ekki viljað gera þetta án þeirra aðstoðar.
Að baki liggur mikil vinna við að koma upp húsnæðinu þar sem að þær litlu framkvæmdir sem við ætluðum í urðu örlítið stærri eins og svo oft þegar farið er í framkvæmdir, en eftir nokkurn tíma voru bara allir veggir horfnir og búið að brjóta upp gólf. Ferlið frá fyrstu alvöru pælingunum og samtölum fram að opnun tók rúma sex mánuði. Það er svo sannarlega gott að eiga góða að þegar farið er í svona framkvæmd. Iðkendur og aðrir vinir og vandamenn sátu ekki auðum höndum í þessu og margir lögðu sitt af mörkum – vinsælasta verkið var þó niðurrifið og þar var ekki erfitt að sannfæra karlafit strákana um aðstoð. Við búum líka svo vel að innan 550 fjölskyldunnar eigum við sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum sem lögðu mikla vinnu í stöðina og við eigum þeim mikið að þakka. Það opnast auðvitað nýjar dyr við svona stækkun og tækifærin margfaldast. Við gripum það tækifæri og bættum við okkur fleiri námskeiðum og heitum tímum sem hafa verið vinsælir. Ekki skemmdi fyrir að Maggi Hinriks er mættur með „Maggapump“ tímana sína og hefur engu gleymt! Einnig höfum við bætt við heitum tímum bæði lokað námskeið og opnir tímar í tímatöflu. Líkamsræktaraðstaðan er svo nýtt upplegg hjá okkur, en þar höfum við sett upp fína aðstöðu fyrir þau sem vilja frekar æfa sjálf.
Við opnuðum á nýja staðnum í lok ágúst í fyrra og í dag hefur iðkendafjöldinn hjá okkur rúmlega þrefaldast, sem er ótrúlegt! Það er bara búið að ganga mjög vel og við erum ótrúlega ánægð með árangurinn. Stöðin er þó ekki orðin alveg 100% klár en góðir hlutir gerast hægt. Okkar stærsta markmið er að skapa góðan anda og skemmtilegan móral innan stöðvarinnar og viljum að öllum líði vel í stöðinni.
Minni salurinn er notaður undir heita tíma en einnig spinning tíma, en í dag bjóða þau upp á 9 spinning tíma í viku.
Hver er framtíðarsýn og draumar 550?
Við erum einhvern veginn bara að lenda eftir þessa breytingu og að aðlagast nýjum aðstæðum á nýjum stað. Draumurinn er auðvitað að útrýma biðlistum og koma öllum fyrir sem vilja koma. Við reynum að leggja okkar af mörkum við það að bjóða upp á fjölbreytta hreyfingu svo að sem flestir finni eitthvað við sitt hæfi. Hreyfing er svo mikilvægur partur í því að viðhalda góðri heilsu, bæði andlegri og líkamlegri, og því er mjög mikilvægt að fólk finni sér hreyfingu sem hentar. Við erum eins og við sögðum hér að ofan með ótrúlega flottan hóp af metnaðarfullum þjálfurum sem að sjá til þess að iðkendur fái sem mest út úr þeirri hreyfingu sem þeir stunda hjá okkur undir faglegri leiðsögn og jákvæðri hvatningu. Það er draumur að geta alltaf boðið upp á slíka þjónustu.
Í sumar stækkuðu þau stöðina um 170 fermetra en hún er nú staðsett við Borgarflöt 1 á Sauðárkróki (gamla Nýprent)
SSNV óskar Ernu og Sigga innilega til hamingju með nýtt húsnæði!
Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga
Kt. 541292-2419
S. 419 4550